Innlent

Flest slys verða við bestu aðstæður

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Stjórnarmaður í Landssambandi íslenskra vélsleðamanna segir flest slysin verða við bestur aðstæður.
Stjórnarmaður í Landssambandi íslenskra vélsleðamanna segir flest slysin verða við bestur aðstæður. Mynd/Hávarður Olgeirsson
Björn Traustason, stjórnarmaður í Landssambandi íslenskra vélsleðamanna, segir að Langjökull, þar sem tævanskur ferðamaður lést í vélsleðaslysi í fyrradag, sé einn öruggasti staðurinn til slíkra ferða.

„En það er einmitt við bestu aðstæður sem flestu slysin verða,“ segir hann „Þá er tilhneigingin mest til að yfirgefa halarófuna og gefa í sem síðan getur leitt menn í aðstæður sem þeir ráða ekki við.“ Hann segir einnig að fyrirtækið Fjallamenn standi vel að þessum ferðum og fari að öllu með gát.

Rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi rannsakar nú tildrög banaslyssins sem varð á Langjökli í fyrradag. Í tilkynningu sem lögreglan á Selfossi sendi frá sér í gær segir að rannsóknin beinist meðal annars að því hvort búnaður sleðans hafi verið í lagi.

Maðurinn, sem hét Jin Jee Dzan, var ásamt konu sinni í skipulagðri vélsleðaferð þar sem leiðsögumaður fer fyrir hópnum og leiðir hann afmarkaða leið. Ökuhraðinn á þessum brautum er einungis tíu til fimmtán kílómetrar á klukkustund.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær var maðurinn ekki með ökuréttindi og var því á sleðanum í óleyfi. Í tilkynningu frá lögreglu segir að allt hafi verið með eðlilegu móti fyrst í stað en svo hafi maðurinn aukið hraðann umtalsvert og við það kastaðist konan af sleðanum. Maðurinn missti svo stjórn á sleðanum sem valt að minnsta kosti tvær veltur. Konan ökklabrotnaði og hlaut skrámur í andliti og víðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×