Innlent

"Við erum fremur bjartsýn"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Samningsaðilar mættu á Eiríksstaði upp úr klukkan ellefu í morgun og stóðu fundahöld fram eftir degi. Gert var fundarhlé en aftur verður sest að samningaborðinu nú klukkan sjö til að ræða nýjar hugmyndir.

Hvaða hugmyndir eru þetta sem verið er að ræða?

„Ég get lítið farið út í það. Við þurfum að máta þetta og það hefur verið farið fram og aftur með alls konar hluti. Nú er eitthvað í gangi sem við viljum skoða nánar og máta inn í okkar umhverfi og erum fremur bjartsýn,“ segir Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga.

Hefur eitthvað nýtt fjármagn komið inn í þetta?

„Nei, ekki okkur vitanlega en menn eru að teygja sig og finna leiðir.“

Hverjar nákvæmlega eru kröfurnar hjá ykkur?

„Ja, það er nú erfitt að fara að segja það núna því ég vil ekki segja hvað við erum að tala um.“

Katrín segir að geislafræðingar vilji fá metið að þeir séu mjög sérhæfð starfsstétt og að inni í myndinni sé að búa til kerfi sem ekki gagnist öllum strax.

Af hverju viljið þið ekki segja hverjar kröfurnar hjá ykkur eru?

„Jú sko, það hefur verið, eins og ég segi ... Við erum að tala um ýmsa þætti og þetta hreyfist mjög til. Það er búið að vera að segja að við séum með kröfur út úr geimnum en þegar menn fara að skoða þetta í því samhengi sem við erum að tala um þá er það ekki alveg þannig.“

Katrín segir mjög alvarlega stöðu skapast ef geislafræðingar ganga út en hún veit ekki hvað felst í neyðaráætlun spítalans sem þá tekur við. Björn Zoega, forstjóri Landspítalans, kvaðst í samtali við fréttastofu í dag bjartsýnn að eðlisfari en vildi ekki tjá sig nánar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×