Enski boltinn

Di Canio: Leikmenn Sunderland fá ekki að fara strax í sumarfrí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paolo Di Canio.
Paolo Di Canio. Mynd/Nordic Photos/Getty

Paolo Di Canio, knattspyrnustjóri Sunderland, ætlar ekki að sleppa sínum leikmönnum strax í sumarfrí þrátt fyrir að liðið spili sinn síðasta leik á tímabilinu á sunnudaginn. Di Canio tilkynnti blaðamönnum að allir hans leikmenn þurfi að mæta til vinnu á mánudagsmorguninn.

„Ef einhver í liðinu hefur pantað sér sólarferð á mánudaginn þá hefur hinn sami hent peningum út um gluggann. Af hverju ættu þeir að fara í frí á mánudaginn og það án þess að tala við mig," spurði Paolo Di Canio þá blaðamenn sem mættu á fundinn. Sunderland er búið að bjarga sér frá falli vegna þess að Wigan féll þegar liðið tapaði fyrir Arsenal í vikunni.

„Ég mun sjá til hvernig þetta spilast hjá okkur á sunnudaginn. Ég mun kalla liðið saman á mánudaginn og þá fá þeir að vita hvenær sumarfríið þeirra byrjar," sagði Paolo Di Canio.

„Ég sagði við mín leikmenn að þeir geta unnið leikinn, gert jafntefli eða tapað með sæmd en þeir verða að gefa allt sitt fyrir stolt félagsins og fyrir stuðningsmennina sem standa við bakið á þeim. Ef ekki þá mun ég stytta fríið þeirra," sagði Di Canio.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×