Fótbolti

Lars: Er bjartsýnn á að halda áfram með landsliðið

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Ég veit í raun ekki hvað framtíðin ber í skauti sér,“ sagði Lars Lagerback, landsliðsþjálfari, í samtali við Arnar Björnsson, íþróttafréttamann stöðvar 2, í gær en framtíð hans með liðið var til umræðu.

„Ég hef rætt við KSÍ og í raun er ég nokkuð bjartsýnn á að halda áfram með liðið. Starfið er vissulega mun áhugaverðara þegar maður er með eins góða leikmenn í höndunum og ég hef núna.“

„Við erum með frábært U-21 landslið og fáir í A-landsliðinu sem eru yfir þrítugt í dag. Ég sé alveg fyrir mér að Ísland verðir með mjög gott lið á næstu árum.“

„Það hafa nokkrir aðilar haft samband við mig um mögulegt starf með annað lið en ég mun alltaf ræða fyrst við KSÍ.“

Ísland mætir Kýpur í undankeppni HM í kvöld og verður liðið helst að ná í sigur í leiknum.

„Við búumst við erfiðum leik. Kýpverjar eru góðir í fótbolta og hafa verið nokkuð óheppnir í þessari undankeppni. Leikmenn liðsins eru góðir en spurning hvort við séum með sterkari liðsheild.“

Ísland vann Albaníu, 2-1, í síðasta leik fyrir framan fullan Laugardalsvöll.

„Ef við spilum eins vel og gegn Albaníu þá er ég viss um að við eigum eftir að vinna leikinn gegn Kýpur.“

Hægt er að sjá viðtalið hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×