Fótbolti

Fyrstur til að spila eftir að hafa komið út úr skápnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robbie Rogers.
Robbie Rogers. Mynd/NordicPhotos/Getty

Bandaríski knattspyrnumaðurinn Robbie Rogers vakti heimsathygli í febrúar þegar hann kom út úr skápnum og tilkynnti að hann væri samkynhneigður. Nú ætlar hann fyrstur fótboltamanna að spila í bandarísku MLS-deildinni eftir að hafa komið út úr skápnum.

Los Angeles Galaxy, gamla félagið hans David Beckham, samdi við Robbie Rogers en hann hefur verið að æfa með félaginu undanfarnar vikur. Bruce Arena, þjálfari Galaxy, tók honum vel og hann fékk líka mikinn stuðning frá langtímavini sínum Landon Donovan.

Robbie Rogers þótti einn af efnilegustu knattspyrnumönnum Bandaríkjanna. Hann varð háskólameistari með Maryland 2005 og þremur árum síðan vann hann bandaríska meistaratitilinn með Columbus Crew auk þess að vera valinn í úrvalslið tímabilsins.

Rogers tilkynnti að hann væri hættur í fótbolta um leið og hann gaf það út að hann væri samkynhneigður af því að hann vildi ekki taka þátt í sirkus sem hann var viss um að kæmi í kjölfarið.

Rogers segist hafa áttað sig á mikilvægi þess að hann héldi sínu striki inn á vellinum þegar hann ræddi við hóp barna í Portland í apríl. „Mér leið eins og heigul. Ég er 25 ára gamall og hef tækifæri á því að vera fyrirmynd og rödd í baráttu samkynhneigða," sagði Rogers við USA Today.

Rogers ætlar ekki bara að spila með Galaxy því hann hefur einnig sett stefnuna á að komast í bandaríska landsliðið fyrir HM í Brasilíu á næsta ári.

Miðað við fjölmiðlaáhugann sem er líklegur til að fylgja Rogers er kannski hægt að segja að eftirmaður David Beckham hjá Galaxy-liðinu sé fundinn.  „Það er æðislegt að fá að taka þátt í því að breyta þjóðfélaginu," sagði Rogers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×