Fótbolti

Heimir: Ánægður hvernig menn svöruðu gagnrýni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Valli
Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck voru eldhressir á blaðamannafundi eftir 2-1 sigurinn á Albönum í kvöld.

Svínn bað Heimi um að taka frumkvæðið á fundinum og fara yfir leikinn. Lagerbäck vildi að öllum væri ljóst að þeir ynnu sem teymi og bæru mikla virðingu hvor fyrir öðrum.

Heimir sagðist ánægður með hvernig taktíkin sem íslenska liðið lagði upp með hefði virkað. Miklu betur en í síðustu leikjum.

„Persónulega er ég ánægður með hvernig þeir sem fengu mesta gagnrýni eftir leikinn í Sviss svöruðu fyrir sig,“ sagði Heimir. Taldi Heimir upp Ara Frey Skúlason, Birki Má Sævarsson, Kára Árnason og Hannes Þór Halldórsson.

„Þeir vissu að við vorum að hugsa um að breyta liðinu. Þetta eru menn. Þeir sýna að þeir eru menn til að taka gagnrýni,“ sagði Heimir hrósaði viðhorfi Helga Vals Daníelssonar sérstaklega.

Helgi Valur fékk bágt fyrir frammistöðu sína í jafnteflinu í Sviss þar sem honum var skipt af velli. Heimir sagði viðbrögð Helga til fyrirmyndar en miðjumaðurinn ætlar að svara fyrir sig næst þegar hann fær tækifæri í liðinu.

Eina breytingin á byrjunarliðinu frá því í Sviss var innkoma Eiðs Smára fyrir Helga Val. Fyrir vikið spilaði Gylfi Þór Sigurðsson á miðjunni með Aroni Einari.

„Við erum svolítið hræddir við að hafa Gylfa Þór á miðjunni og missa jafnvægið hvað varnarleikinn varðar á miðjunni,“ sagði Heimir. Hann var nokkuð sáttur með leik Eiðs Smára á miðjunni.

„Það er alltaf vafi hvort hann spili eða ekki af því hann spilar ekki níutíu mínútur með félagsliði sínu,“ sagði Heimir. Hann benti á að hefði Eiður spilað meira í Sviss hefði það líkast til setið í honum. Þess í stað var hægt að fullnýta hann í kvöld.

Leikmenn halda nú heim til sín eftir samveru undanfarinnar viku. Þjálfararnir ætla þó að fagna sigrinum saman.

„Ég ætla að fagna með Heimi ef hann er til. En kannski á hann betri vini en mig,“ sagði Lagerbäck léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×