Innlent

Segir hrefnuveiðar ógna hvalaskoðun á Faxaflóa

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Hrefnuveiðar á Faxaflóasvæðinu hafa veruleg áhrif á hvalaskoðunarferðir. Nú sjást eitt til tvö dýr í hverri ferð en voru mun fleiri fyrir nokkrum árum. Rekstrarstjóri hvalaskoðunarfyrirtækis hvetur til þess að hvalveiðiskip haldi á önnur mið enda sé enginn skortur á dýrunum við Ísland.

Hrefnuveiðiskipið Hrafnreyður KÓ er mætt aftur til veiða á Faxaflóa eftir að hafa verið á veiðum norðan við land. Þetta hugnast hvaðaskoðunarfyrirtækjum í Reykjavíkurhöfn ekki enda eru skoðunarskipin í aðeins nokkurra kílómetra fjarlægð frá hvalveiðiskipinu.

Ásbjörn Björgvinsson, rekstrarstjóri hjá Sérferðum í Reykjavíkurhöfn, hefur fylgst með þróun hvalveiða sem og þeim uppgangi sem átt hefur sér stað í hvalaskoðun á síðustu árum. Hann segir hrefnuveiðar á Faxaflóa mikla ógn fyrir hvalaskoðun á svæðinu.

„Í dag höfum við ekki séð neina hvali og við þurfum að komast virkilega langt suður til að sjá þá. Þetta hefur verið mjög gott ár það sem af er. Mikið af gæfum dýrum," segir Ásbjörn.

„Ég ætla rétt að vona að það verði gerð breyting á þessu og að þessir menn finni sér annað veiðisvæði. Það skiptir öllu máli fyrir okkur að einstaklingar sem eru gæfir, forvitnir og koma nálægt bátunum fái að sleppa inn á flóann. Að þeir séu ekki skotnir rétt fyrir utan skagann."

Ásbjörn segir það vera undarlegt að hrefnuveiði sé stunduð rétt á mörkum griðasvæðisins.

Allir hvalir sem sjást í skoðunarferðum eru skráðir. Ásbjörn fullyrðir að dýrum hafi fækkað verulega á síðustu misserum. Þannig er fjöldi hvala kominn niður í eitt til tvö dýr í hverri skoðunarferð en var sex til sjö fyrir fimm árum.

Því hvetur hann fyrirtækin til að færa veiðar sínar á önnur mið, enda sé nóg af dýrunum.

„Því færri sem dýrin eru því dýrara er það fyrir okkur. Við þurfum að gefa ferðir ef hvalur sést ekki. Þetta kemur niður á fyrirtækjunum sjálfum. Hér starfa á annað hundrað manns bara við hvalaskoðun. Þarna er klárlega verið að fórna mun meiri hagsmunum fyrir minni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×