Innlent

Stóískur rostungur fyrir austan

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Þessi stóíski rostungur hafði engar áhyggjur af nærstöddum Austfirðingum.
Þessi stóíski rostungur hafði engar áhyggjur af nærstöddum Austfirðingum. mynd/Ólafur Örn Pétursson
Rostungur heimsótti Skálanes í Seyðisfirði í vikunni og tók lífinu með ró að sögn heimamanna. „Hann var ósköp gæfur og hafði engar áhyggjur þótt við værum þarna á vappi um tíu metra frá honum,“ segir Ólafur Örn Pétursson, staðarhaldari á Skálanesi, sem er yst á suðurtanga fjarðarins.

Þetta er annar rostungurinn sem sækir Austfirðinga heim en annar sem merktur hafði verið í Færeyjum hafi stutta dvöl á Reyðarfirði fyrr í sumar. Ólafur Örn segir þennan sem nú hafi sést jafn vel tenntan og hinn fyrri.

Það er varla að Austfirðingar láti sér bregða við slíka sjón en dýralíf er í miklum blóma þar eystra að sögn Ólafs Arnar. „Til dæmis er allt fullt af kríuungum og greinilega nóg æti,“ segir hann. „Ég hef aldrei séð þetta í slíkum blóma og karl faðir minn, sem er nú eldri en tvævetra, segir það sama svo þetta er ekki bara eitthvað bull í mér.“

Þar á ofan eru síðan höfrungar og stórhveli á stöðugu svamli fyrir austan.

Aðalheiður Bergþórsdóttir, menningar- og ferðafulltrúi á Seyðisfirði, segir mannlífið ekki gefa dýralífinu neitt eftir en mikill fjöldi ferðamanna hefur verið þar í sumar og hver menningaratburðurinn rekið annan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×