Innlent

Ungfrú Ísland vekur athygli erlendis

Boði Logason skrifar
Sigríður Ingibjörg, þingkona Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg, þingkona Samfylkingarinnar. Mynd/WSJ
Bandaríska blaðið The Wall Street Journal fjallar á vefsíðu sinni um Ungfrú Ísland keppnina sem haldin verður hér á landi í haust. Í myndskeiði á vefsíðu blaðsins fjalla nokkrir Íslendingar um keppnina, sem hefur vakið hörð viðbrögð.

Meðal annars er rætt við þingkonuna Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Sigríði Guðmarsdóttur, sóknarprest í Grafarvogi, og Rafn Rafnsson, framkvæmdastjóra keppninnar.

Á vefsíðunni er vitnað í þau orð Rafns að það sé ekki til nein steríótýpa fyrir konur sem taka þátt í Ungfrú Ísland. „Og þá opnuðu flóðgáttir. Konur á öllum aldri, þar á meðal þingkona og ellilífeyrisþegi, sóttu um og jafnvel karlmenn líka. Á innan við viku höfðu 1300 manns sótt um," segir á vefsíðu Wall Street Journal.

 

„Fólk hefur mismunandi skoðanir á keppninni, auðvitað á það að vera þannig," segir Rafn í myndskeiðinu. Matthildur Helgadóttir-Jónudóttir framkvæmdastjóri segir í myndskeiðinu að hún hafi skráð sig í keppnina til að gera grín að henni - vegna þess að hún haldi að ekki sé hægt að keppa í fegurð.

„Ég er Ungfrú Ísland, af því að ég er íslensk. Og ég er ungfrú vegna þess að ég er ekki gift. Og ég er það því ég er falleg," segir Brynhildur Björnsdóttir, fjölmiðlakona.

Lesa má umfjöllun The Wall Street Journal hér og myndskeiðið hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×