Enski boltinn

Arsenal felldi bikarmeistarana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsenal felldi nýkrýnda bikarmeistara Wigan með því að vinna þá 4-1 á Emirates-leikvanginum í kvöld en Wigan-menn urðu að vinna til þess að eiga möguleika á því að bjarga sér í lokaumferðinni. Lukas Podolski skoraði tvö mörk fyrir Arsenal og Santi Cazorla átti þrjár stoðsendingar.

Sigurinn var afar mikilvægur fyrir Arsenal-liðið sem komst aftur upp fyrir Tottenham og í 4. sætið. Arsenal getur þar með tryggt sér sæti í Meistaradeildinni með sigri á Newcastle í lokaumferðinni en Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Tottenham þurfa bæði að vinna sinn leik og treysta á það að Arsenal tapi stigum.

Wigan Athletic er hinsvegar fallið úr deildinni ásamt Queens Park Rangers og Reading og það verður því engin fallbarátta í gangi í lokaumferðinni. Wigan var búið að vera í úrvalsdeildinni frá árinu 2005.

Lukas Podolski kom Arsenal í 1-0 á 11. mínútu eftir sofandahátt í Wigan-vörnni. Podolski fékk boltann í markteignum og skallaði hann í markið eftir að hornspyrna Santi Cazorla sigldi í gegn hóp varnarmanna Wigan.

Wigan tókst hinsvegar að jafna á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Shaun Maloney skoraði beint úr aukaspyrnu. Wojciech Szczesny komst í boltann en tókst ekki að bjarga marki.

Theo Walcott kom Arsenal aftur yfir á 63. mínútu eftir frábæra sendingu Santi Cazorla og þá var eins og Wigan-liðið brotnaði því Arsenal skoraði tvö mörk til viðbótar á næstu átta mínútum.  

Lukas Podolski skoraði þriðja markið á 68. mínútu eftir að Cazorla skallaði boltann inn fyrir vörnina og Aaron Ramsey skoraði síðan fjórða markið á 71. mínútu eftir stoðsendingu frá Kieran Gibbs.



Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×