Brasilía fór létt með Hondúras í æfingaleik í fótbolta í Miami í nótt. Brasilía vann leik liðanna 5-0 en báðar þjóðir undirbúa sig fyrir Heimsmeistarakeppnina sem leikin verður í Brasilíu næsta sumar.
Bernard kom Brasilíu á bragðið með marki á 22. mínútu í sínum fyrsta landsleik eftir sendingu frá Paulinho. Meira var ekki skorað í fyrri hálfleik.
Robinho kom inn á sem varamaður í hálfleik fyrir Jo en þetta var fyrsti landsleikur Robinho í tvö ár.
Neymar lagði upp mark fyrir Dante á tíundu mínútu seinni hálfleiks og ellefu mínútum síðar bætti Maicon við marki og staðan orðin 3-0.
Willian bætti fjórða markinu við á 70. mínútu eftir undirbúning Hulk og fjórum mínútum síðar skoraði Hulk sjálfur fimmta markið eftir sendingu Robinho.
Brasilía mætir Síle á þriðjudaginn í Toronto í Kanada í síðasta landsleik sínum á árinu. Hondúras mætir Ekvador á sama tíma í Houston.
