Enski boltinn

Of margir aumingjar í liðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Joey Barton, sem er enn á mála hjá QPR, hraunaði yfir liðið og leikmenn þess eftir að það féll úr ensku úrvalsdeildinni í dag.

Barton er nú í láni hjá Marseille í Frakklandi og er hann nú áhugasamur um að vera áfram þar í landi og klára ferilinn hjá félaginu.

QPR féll eftir markalaust jafntefli gegn Reading, sem féll reyndar einnig í dag.

„Ég bara trúi því ekki að QPR sé fallið og Jose Bosingwa hafi gengið brosandi til búningsklefans,“ skrifaði Barton á Twitter-síðuna sína í dag.

„Ég er miður mín vegna félagsins. Það eru of margir aumingjar á meðal leikmanna. Allir komu þeir þegar að Mark Hughes stýrði liðinu. Sumir eru góðir drengir en ekki nóg.“

„Ég vona að þeir nái að losa sig við marga af þessum leikmönnum því annars gæti farið fyrir liðinu eins og Wolves,“ skrifaði hann einnig en Wolves er nú við það að falla í C-deildina eftir að hafa spilað í ensku úrvalsdeildinni í fyrra.

„Trúið mér. B-deildin er gríðarlega erfið deild.“

Harry Redknapp, stjóri QPR, reiknar ekki með því að Barton muni spila aftur í búningi QPR.

„Ég held að það verði mjög erfitt. Hann nýtur góðs lífstíls í Marseille og það kæmi mér á óvart ef hann vildi koma til baka.“


Tengdar fréttir

Ekki gleyma þessari tilfinningu

Nigel Adkins, stjóri Reading, sagði leikmönnum sínum eftir leik í dag að gleyma því aldrei hvernig það er að falla úr ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×