Enski boltinn

Sneijder gæti farið til Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Ensku dagblöðin Mail on Sunday og Daily Star Sunday slá því bæði upp í dag að Liverpool hafi hug á að klófesta Hollendinginn Wesley Sneijder, leikmann Inter.

Ítalska félagið samþykkti á dögunum tilboð frá Galatasaray í Sneijder en hann sjálfur á eftir að samþykkja félagaskiptin.

„Ég þarf að taka stóra ákvörðun og ég held að hún verði ekki tekin fyrir mánudaginn. Það eru enn tvær vikur þar til að lokað verður fyrir félagaskipti og ég hef því enn tíma. Ég er rólegur og er að skoða mína möguleika," sagði Sneijder við ítalska fjölmiðla eftir leik Inter og Pescara í gær.

Sneijder hefur áður verið orðaður við ensk félög en háar launakröfur hans hafa flækst fyrir. Hann hefur þó ekkert spilað með Inter síðan í september og því mögulegt að hann sé reiðubúinn að slaka á kröfum sínum nú.

Tilboð Galatasaray mun hafa verið upp á tíu milljónir evra og segja ensku blöðin að Liverpool gæti boðið sambærilega upphæð í kappann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×