Innlent

Þakklæti til forsetans efst í huga Sigurjóns

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurjón Þorvaldur Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, segir að niðurstaða EFTA dómstólsins sé í takti við það sem hann hafði átt von á. Öllum kröfum ESB, ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum var hafnað. Hitt sem sé að koma í ljós, sem hafi verið á hreinu í sínum huga, sé að eignir Landsbankans muni duga fyrir innistæðum á Icesave og meira til. Áætlað sé að eignir þrotabúsins séu um 200 milljörðum meira en kröfurnar.

Sigurjón segir að það hafi verið frekja og yfirgangur af hálfu stærri þjóða að ætlast til þess að Íslendingar gengust undir skuldbindingar sem þeim hafi aldrei borið skylda til að gangast undir. „Og í dag er í mínum huga eiginlega efst þakklæti til forsetans fyrir að hafa staðið sig svona vel. Ef hans hefði ekki notið við þá hefði þetta getað endað mjög illa. Því að hann gaf þjóðinni tækifæri til að segja hug sinn um málið og í rauninni hafna þeim samningum sem þá lágu fyrir," segir Sigurjón. Forsetinn eigi mikinn heiður og þakkir skyldar fyrir í þessu máli. „Ef hans hefði ekki notið við þá værum við stödd á allt öðrum stað en við erum í dag," segir Sigurjón.

Þá bendir Sigurjón á að með þessum dómi hafi Neyðarlögin verið staðfest. „Það er ekki verið að mismuna milli innlendra og erlendra aðila," segir Sigurjón. „Og svo er gaman að sjá að meira að segja málskostnaðurinn var allur felldur á gagnaðilann," segir Sigurjón. Það segi oft mikla sögu um lyktir máls hvernig málskostnaðurinn fellur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×