Erlent

Eitt prósent af gögnum Snowdens hafa verið birt

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Alan Rusbridger, ritstjóri Guardians, í yfirheryslu hjá innanríkismálanefnd breska þingsins í dag.
Alan Rusbridger, ritstjóri Guardians, í yfirheryslu hjá innanríkismálanefnd breska þingsins í dag. Mynd/AP
Alan Rusbridger, ritstjóri breska dagblaðsins The Guardian, segir aðeins um eitt prósent þeirra gagna sem borist hafa frá uppljóstraranum Edward Snowden hafi verið birt.

Alls hafi blaðinu borist um 58 þúsund skjöl frá Snowden.

Þetta sagði hann í yfirheyrslu hjá innanríkismálanefn breska þingsins í dag. Jafnframt sakar hann bresk stjórnvöld um að hafa sýnt yfirgang og beitt beinum og óbeinum hótunum í von um að hræða blaðið frá því að birta upplýsingar frá Snowden.

Rusbridger segir blaðið hins vegar hafa gætt ítrustu varkárni við birtingu skjalanna. Meðal annars hafi meira en hundrað sinnum verið haft samband við stjórnvöld áður en birtar voru upplýsingar úr gögnunum.

Hann vísaði því á bug að upplýsingarnar, sem birtar hafa verið í Guardian, hafi stofnað fólki í hættu. Hins vegar hafi birting upplýsinganna vakið mikilvæga umræðu um hlutverk ríkisvaldsins og réttindi almennings.

Þá spurði hann hvers vegna breska þingið hafi ekki krafist svara við því hvers vegna 8.500 manns hafi haft aðgang að leyniskjölunum, sem Snowden hirti frá bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni og sendi til fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×