Fótbolti

Kamerún á "leikmannaveiðum" í Evrópu á næstunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jean Makoun fagnar hér sæti Kamerún á HM í Brasilíu.
Jean Makoun fagnar hér sæti Kamerún á HM í Brasilíu. Mynd/AFP
Sérstök nefnd á vegum Knattspyrnusambands Kamerún er á leiðinni til Evrópu á næstu vikum til þess að reyna sannfæra nokkra stórefnilega leikmenn af kamerúnskum ættum til að gefa kost á sér í landslið þjóðarinnar.

FECAFOOT, Knattspyrnusamband Kamerún, segir að nefndin einbeiti sér sérstaklega af fjórum leikmönnum sem allir eiga það sameiginlegt að hafa spilað fyrir yngri landslið Frakka.

Leikmennirnir eru þeir Paul-Georges Ntep de Madiba og Axel Ngando hjá AJ Auxerre, Samuel Umtiti hjá Olympique Lyon og Jean-Christophe Behebeck hjá Valenciennes. Ntep de Madiba er 21 árs gamall en hinir eru tvítugir.

Hugmyndin er að kanna hvort leikmennirnir séu tilbúnir að spila fyrir landslið Kamerún og í framhaldinu að fá síðan leyfi hjá FIFA til að skipta um "knattspyrnuþjóðerni" þeirra.

Leikmennirnir ættu möguleika á því að spila á HM í Brasilíu næsta sumar velji þeir að spila fyrir Kamerún. Kamerún er þar í riðli með Brasilíu, Króatíu og Mexíkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×