Enski boltinn

Sherwood vill nota Gylfa á miðjunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Samsett
„Það er jákvætt að hann hefur talað við mig og sagst sjá mig fyrir sér sem miðjumann. Hann telji að hann fái mest út úr mér þar,“ segir landsliðsmaðurinn og íþróttamaður ársins Gylfi Þór Sigurðsson.

Gylfi Þór hefur leikið allar 270 mínúturnar í fyrstu þremur leikjum Tottenham undir stjórn nýs knattspyrnustjóra, Tim Sherwood. Í fyrsta leiknum gegn West Ham var hann á miðjunni en á kantinum í undanförnum tveimur leikjum.

Gylfi segist hafa verið nýttur á kantinum vegna meiðsla leikmanna á borð við Andros Townsend og Aaron Lennon. Hann sé hins vegar enginn kantmaður.

„Vonandi fæ ég tækifærið þegar allir verða heilir og næ að nýta það,“ segir Gylfi.

Tottenham tekur á móti Stoke klukkan 16 í dag í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 og beinni textalýsingu hér á Vísi.

Gylfi sagðist í samtali við blaðamann í gærkvöldi allt eins reikna með því að vera á bekknum í dag. Hann hefur spilað þrjá leiki á níu dögum auk þess sem Tottenham mætir Manchester United í risaleik á nýársdag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×