Fótbolti

Tilkynning Tólfunnar rataði í króatíska fjölmiðla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luka Modric í leiknum á föstudaginn.
Luka Modric í leiknum á föstudaginn. Mynd/Daníel
Afsökunarbeiðni Tólfunnar, stuðningsmannahóps íslenska landsliðsins, hefur vakið athygli í króatískum fjölmiðlum.

Tólfan varaði fyrst við komu Luka Modric á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir leikinn en dró viðvörunina svo til baka eftir leikinn og sendi eftirfarandi afsökunarbeiðni.

„Í ljós hefur komið að þvert á móti er hann óttalegt grey sem kom hingað eingöngu til að fylgja vini sínum Undiano sem var að dæma fótboltaleik á Íslandi. Þótt að sögusagnir séu í gangi um rómantískt samband þeirra á milli þá ætlum við ekki að staðhæfa neitt um það," sagði í yfirlýsingu Tólfunnar.

Króatískir fjölmiðlar segja að stuðningsmenn Íslands hafi greinilega skipt um skoðun á ágæti Modric eftir frammistöðuna á Laugardalsvelli á föstudagskvöldið.

Leiknum lauk með markalausu jafntefli þrátt fyrir að Ólafur Ingi Skúlason hafi fengið rautt spjald snemma í síðari hálfleik. Síðari leikurinn fer fram í Zagreb á þriðjudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×