Grikkir voru fyrsta þjóðin til þess að komast í gegnum umspilsleiki Evrópuhluta undankeppni HM 2014 en Grikkir tryggðu sér sæti á HM í Brasilíu næsta sumar með því að gera 1-1 jafntefli í Rúmeníu í kvöld.
Þetta er í þriðja sinn sem Grikkir verða með í úrslitakeppni HM en þeir komust einnig á HM í Bandaríkjunum 1994 og á HM í Suður-Afríku fyrir fjórum árum.
Kostas Mitroglou, leikmaður Olympiacos, var hetja Grikkja í umspilsleikjunum á móti Rúmeníu en hann skoraði tvö mörk í fyrri leiknum og bætti síðan við einu í kvöld. Markið hans kom í fyrri hálfleik og gerði nánast endanlega út um einvígið.
Kostas Mitroglou lék á rangstöðuvörn Rúmena og kom Grikklandi í 1-0 strax á 23. mínútu. Grikkir voru því komnir 4-1 yfir samanlagt.
Rúmenar fengu smá von eftir að hafa fengið góða hjálp frá varnarmönnum Grikkja á 55. mínútu. Jose Holebas hreinsaði þá boltann í Vasileios Torosidis og þaðan fór hann í þeirra eigið mark. Staðan orðin 1-1.
Fleiri urðu mörkin ekki og Grikkir fögnuðu því sæti á HM í Brasilíu í leikslok. Þeir unnu 4-2 samanlagt.
Grikkir á HM eftir jafntefli í Rúmeníu
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið









„Búnir að vera á smá hrakhólum“
Íslenski boltinn

Hundur vildi prófa nýja gervigrasið og fór inn á völlinn í Eyjum
Íslenski boltinn