Innlent

Meðlagsþiggjendur rukkaðir vegna ofgreiðslu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
„Ef um ofgreiðslu er að ræða af einhverjum orsökum er meðlagsþiggjandi endurkrafinn um það sem ofgreitt var.“ Þetta kemur fram á heimasíðu Tryggingastofnunar. Þar segir einnig að Innheimtustofnun sjái um að innheimta greitt meðlag hjá meðlagsskyldum aðila.

Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 og á Vísi hefur ríkið hugsanlega ofrukkað alla meðlagsgreiðendur um mánuðinn þegar börn þeirra ná 18 ára aldri, en þá lýkur framfærsluskyldu samkvæmt lögum. Meðlagsgreiðandi sem lét á þetta reyna fékk meðlag endurgreitt.

Árni Helgason lögmaður lét reyna á það fyrir hönd umbjóðanda síns sem er meðlagsgreiðandi, hvort það stæðist að rukka fullt meðlag fyrir mánuðinn þegar börn ná átján ára aldri. Málið fór fyrir Úrskurðarnefnd almannatrygginga sem féllst nýlega á að um ofrukkun hefði verið að ræða.

„Ég hef miklar efasemdir um að þetta standist,“ segir Árni um það að endurkrefja eigi meðlagsþiggjendur um það sem þau fengu ofgreitt.

Hann segir það undarlega nálgun að þegar í ljós komi að ríkið hafi gert mistök, að það ætli að rukka þá um endurgreiðslu, sem tóku við greiðslunni í góðri trú. Jafnvel fyrir einhverjum árum síðan.

Hann telur að slíkt geti dregið úr því að fólk leiti réttar síns. Það geti verið óþægilegt fyrir meðlagsgreiðandann að vita að ef hann fer fram á endurreiðslu að hitt foreldrið, sem barnið búi jafnvel enn hjá, sé rukkað vegna ofgreiðslu.

Árni segir að í þeim dómum eða dæmum sem reynt hafi á það að endurkrefja meðlagsþiggjendur, hafi slíkt yfirleitt ekki borið árangur. Þótt það hafi ekki verið fullkomlega sambærilegar aðstæður þá sé horft til þess í slíkum tilfellum að meðlagsþiggjendur hafi tekið við greiðslum í góðri trú og að það gæti verið þungbært að innheimta slíkur greiðslur síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×