Fótbolti

Hver er Vincent Laban-Bounayre?

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Vilhelm
Líklega kannast fáir við nafnið en sá hinn sami var sá eini úr liði Kýpverja sem skaut að marki í landsleiknum á Laugardalsvelli í kvöld.

Strákarnir okkar áttu 19 skot að marki í leiknum og höfnuðu níu þeirra á markinu. Eina skot Kýpverja kom á 40. mínútu þegar Vincent Laban-Bounayre lét vaða með vinstri fæti utan teigs. Skotið sveif hátt yfir markið en var kærkomin æfing fyrir boltastrákana fyrir síðari hálfleikinn þegar íslenska liðið sótti af krafti.

Sjaldan hafa yfirburðir Íslands verið jafnmiklir þótt illa hafi gengið hjá okkar mönnum að klára færin. Það er þó ágætt að eiga skotin inni fyrir útileikinn gegn Noregi enda hafa glæsimörk Íslands komið á erlendri grundu í keppninni til þessa.

Þannig hlóð Gylfi Þór Sigurðsson í sleggju úr aukaspyrnu í 2-1 sigrinum í Albaníu. Hafnfirðingurinn gerði slíkt hið sama í 2-1 sigrinum í Slóveníu og Jóhann Berg gerði það í þrígang í 4-4 jafnteflinu í Zurich. Vonandi verða okkar menn jafn sparkvissir í leiknum í Osló á þriðjudaginn.

Annars er Vincent Laban-Bounayre 29 ára gamall miðjumaður sem spilar með Astra Giurgiu í Rúmeníu. Hann er fæddur í Frakklandi en gerðist ríkisborgari á Kýpur árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×