Fótbolti

Kom Áströlum á HM en var rekinn í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Holger Osieck.
Holger Osieck. Mynd/NordicPhotos/Getty
Holger Osieck var í gær rekinn sem þjálfari ástralska landsliðsins eftir að Ástralar töpuðu 6-0 í vináttulandsleik á móti Frökkum í París í gær. Osieck hafði komið ástralska landsliðinu inn á HM í Brasilíu 2014 í sumar en forráðamönnum ástralska landsliðsins leyst ekki á blikuna eftir tvö 6-0 töp í röð í vináttulandsleikjum.

Fyrir aðeins mánuði síðan tapaði ástralska liðið 6-0 en á móti Brasilíu og sömu úrslit urðu á á Parc des Princes í gær. Á undan hafði liðið tapað 3-4 á móti Kína og 2-3 á móti Japan í Austur-Asíu bikarnum.

Arsenal-maðurinn Olivier Giroud skoraði tvö mörk fyrir Frakka í gær og Franck Ribéry var með eitt mark og þrjár stoðsendingar í leiknum. Newcastle-mennirnir Yohan Cabaye og Mathieu Debuchy skoruðu báðir eitt mark í leiknum sem og Karim Benzema hjá Real Madrid.

Holger Osieck er 65 ára gamall Þjóðverji sem hafði þjálfað ástralska landsliðið frá 11. ágúst 2010 en Osieck tók við liðinu af Pim Verbeek eftir síðustu Heimsmeistarakeppni.

Hollendingurinn Guus Hiddink hefur verið orðaður við starfið en hann stýrði ástralska landsliðinu á árunum 2005 til 2006 og var með liðið á HM í Þýskalandi 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×