Fótbolti

Hver er þessi Deon McCaulay sem markahæstur með Van Persie?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Deon McCaulay.
Deon McCaulay. Mynd/NordicPhotos/Getty
Robin van Persie hefur farið hamförum með hollenska landsliðinu í undankeppni HM en þessi framherji Manchester United er með 11 mörk í átta leikjum.

Van Persie skoraði þrennu í 8-1 sigri á Ungverjum á föstudagskvöldið og varð með því markahæsti landsliðsmaður Hollendinga frá upphafi.

Það þekkja hinsvegar fáir þann leikmann sem er ásamt Robin van Persie markahæsti leikmaðurinn í undankeppni HM í Brasilíu 2014.

Deon McCaulay er orðinn 26 ára gamall og spilar með liði Belmopan Bandits í heimalandi sínu Belís. Belís er 335 þúsund manna þjóð í Mið-Ameríku við sunnanverð landamæri Mexíkó.

McCaulay hefur eins og Robin van Persie skoraði 11 mörk í 8 leikjum í undankeppninni en á þó ekki möguleika að bæta við mörkum því Belís er löngu úr leik.

Deon McCaulay skoraði fjögur marka sinna í tveimur sigrum á Montserrat í forkeppni undankeppninnar í Norður- og Mið-Ameríku og skoraði síðan sjö mörk í sex leikjum í riðlakeppninni þar sem Belís sat eftir.

McCaulay hefur spilað í Kosta Ríka og Hondúras og fór fyrr á þessu ári á reynslu til Portland Timbers í bandarísku atvinnumannadeildinni. Hann fékk hinsvegar ekki samning.

Svo verður bara að koma í ljós hvort að McCaulay verður ennþá markahæstur eftir lokaumferðina á þriðjudaginn en þar geta kappar eins og Robin van Persie, Luis Suárez og Edin Dzeko allir auðveldlega bætt við mörkum.

Flest mörk leikmanna í undankeppni HM 2014

11 mörk

Robin van Persie, Hollandi

Deon McCaulay, Belís

10 mörk

Lionel Messi, Argentína

Blas Pérez, Panama

Luis Suárez, Úrúgvæ

Edin Dzeko, Bosnía

Peter Byers, Antígva og Barbúda

9 mörk

Gonzalo Higuaín, Argentína

Radamel Falcao, Kólumbíu

    

8 mörk

Jerry Bengtson, Hondúras

Clint Dempsey, Bandaríkin

Shinji Okazaki, Japan

Georges Gope-Fenepej, Nýja-Kaledónía




Fleiri fréttir

Sjá meira


×