Fótbolti

Lagerbäck: Verðum meðal þeirra bestu í Evrópu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Daníel
„Sendingarnar í fyrri hálfleik voru stórkostlegar. Ég hef ekki séð þá spila svona vel ef frá er talinn seinni hálfleikurinn í Sviss,“ sagði Lars Lagerbäck, þjálfari karlalandsliðsins á blaðamannafundi eftir leikinn.

Gylfi Þór Sigurðsson og Eiður Smári Guðjohnsen náðu einkar vel saman í fyrri hálfleiknum. Sá fyrrnefndi var raunar í sérflokki í leiknum.

„Það besta við Gylfa er að þótt hann sé leikmaður með mikil gæði þá leggur hann afar hart að sér í níutíu mínútur. Það sér maður ekki oft hjá leikmönnum í hans gæðaflokki,“ sagði Lagerbäck um frammistöðu Gylfa.

Svíinn benti á að nú væri örlög landsliðsins í þess höndum. Liðið gæti tryggt sæti sitt í umspilinu án þess að þurfa að treysta á aðra. Mikilvægt sé þó að halda sér á jörðinni og einbeita sér að leiknum gegn Kýpur.

„Þeir hafa ekki unnið marga leiki en við töpuðum gegn þeim úti. Ég tek engu sem sjálfsögðu hlut í fótbolta,“ sagði Svínn. Ísland tekur á móti Kýpur 11. október og sækir Noreg heim fjórum dögum síðar.

Aðspurður sagðist Lagerbäck alveg hafa ímyndað sér að landsliðið ætti möguleika þegar tveir leikir væru eftir í riðlinum. Þá greip Heimir Hallgrímsson, aðstoðarmaður hans, inn í.

„Vertu hreinskilinn. Þú hafðir trú á okkur og sagðir að við myndum ná öðru sæti. Þú sagðir líka að við myndum verða í kringum 50. sæti á þessum tímapunkti.“  Lars tók undir orð Heimis og hrósaði leikmönnum sínum.

„Svo tökum við inn nokkra leikmenn úr U21 árs landsliðinu með tímanum og verðum meðal þeirra bestu í Evrópu eftir nokkur ár.“


Tengdar fréttir

Ragnar: Við tökum annað sætið.

"Þetta var frábær sigur. Ég man ekki eftir að þeir hafi fengið færi,“ sagði Ragnar Sigurðsson miðvörður Íslands sem var virkilega ánægður með varnarleik Íslands í kvöld gegn Albaníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×