Fótbolti

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Ísland - Albanía 2-1

Óskar Ófeigur Jónsson á Laugardalsvelli skrifar
Mynd/Valli
Ísland er í kjör stöðu í öðru sæti E-riðils undankeppni HM eftir 2-1 sigur á Albaínu á Laugardalsvelli í kvöld. Ísland er með stigi meira en Slóvenía í þriðja sæti.

Íslenska liðið lék frábærlega í kvöld. Liðið stjórnaði spilinu lengst af leiknum og það var ekki fyrr en síðustu tuttugu mínútur leiksins að Albanía stjórnaði spilinu án þess þó ógna marki Íslands að einhverju marki.

Þrátt fyrir það komst Albanía yfir með fyrsta marki leiksins strax á 9. mínútu. Birkir Bjarnason tapaði boltanum klaufalega og gestirnir sóttu hratt og skoruðu með góðu skoti fyrir utan teig.

Birkir bætti fyrir mistök sín þegar hann jafnaði metin aðeins fimm mínútum síðar. Birkir Már Sævarsson átti þá fyrirgjöf sem Albanir náðu ekki að hreinsa frá og nafni hans hamraði boltann í netið af stuttu færi á fjærstöng.

Skömmu áður hafði Eiður Smári fengið upplagt færi til að jafna metin eftir frábæra sendingu Gylfa Þórs Sigurðssonar en Ísland byrjaði leikinn mjög ákveðið og sótti mikið fyrstu mínútur leiksins þrátt fyrir Albanía hafi skorað fyrst.

Þrátt fyrir mikla yfirburði náði Ísland ekki að skapa sér fleiri afgerandi færi í fyrri hálfleik. Liðið lék frábærlega úti á vellinum en herslumuninn vantaði og liðið varð að sætta sig við skot utan af velli sem markvörður Albaníu átti í litlum vandræðum með.

Það tók Ísland ekki nema 96 sekúndur að skora í seinni hálfleik. Gylfi Þór Sigurðsson sem var frábær í leiknum átti flotta sendingu á Birki Má sem gerði vel í að komast fram fyrir vinstri bakvörð Albaníu, senda fyrir og þar stýrði Kolbeinn Sigþórsson boltanum í netið af markteig. Frábærlega að verki staðið hjá íslenska liðinu.

Albanía færði sig framar við að lenda undir og þó íslenska liðið hafi áfram verið sterkari aðilinn komust gestirnir meira inn í leikinn og áttu nokkrar góðar sóknir sem íslenska liðinu tókst að verjast án teljandi vandræða.

Síðustu tíu mínútur leiksins var nánast allt íslenska liðið komið aftur fyrir boltann og sókn Albaníu þyngdist enn án þess að liðið næði að opna íslensku vörnina og verðskuldaður íslenskur sigur staðreynd.

Íslenska liðið sýndi mikinn styrk í að brotna ekki við að lenda undir snemma leiks eftir hið mikla tal um hripleka vörn liðsins í undankeppninni. Varnarleikur liðsins var að mestu leiti til mikilar fyrirmyndar og fékk Albanía fá færi til að skora fleiri mörk í leiknum.

Íslenska liðið hefði hæglega getað skorað fleiri mörk en þegar á þurfti að halda síðustu mínútur leiksins sýndi liðið að það getur vel varist sem heild. Liðið innbyrti þrjú ákaflega mikilvæg stig og er með örlög sín í eigin hendi þegar tvær umferðir eru eftir af riðlinum.

Gylfi Þór: Fólk sér ekki hve duglegur Aron er

„Þetta var ógeðslega gaman, fullur völlur og frábær stemmning. Það var markmiðið að ná í fjögur stig í þessarri viku og við náðum því. Það eru því allir sáttir," sagði Gylfi Þór við hóp íslenska blaðamanna eftir leikinn.

„Við vorum mikið betri í þessum leik en á móti Sviss. Við gerðum ekki eins mikið af mistökum og í þeim leik enda var varnarlínan hærri og það var minna bil á milli allra í liðinu. Þetta var mikið betur," sagði Gylfi.

Gylfi fékk slæmt spark frá  Lorik Cana í seinni hálfleik en harkaði af sér og kláraði leikinn.

„Löppin er svolítið marin og svolítið bólgin en ég held að hún verði orðin ágæt eftir tvo daga," sagði Gylfi.

Gylfi lék að þessu sinni á miðjunni og við hlið Aron Einars Gunnarssonar.

„Hann er svo duglegur og ég held að fólk sjái ekki hversu duglegur hann er í raun. Hann er vinna fullt af tæklingum og fullt af seinni boltum. Hann er hirða upp draslið á miðjunni og ég fær um leið meira leyfi til þess að fara fram á við til að spila boltanum. Við erum að ná mjög vel saman," sagði Gylfi.

Íslenska liðið er í 2. sæti í riðlinum og í frábærri stöðu til þess að komast í umspilið um sæti á HM í Brasilíu.

„Þetta er langt frá því að vera búið því það eru tveir mjög erfiðir leikir eftir. Kýpur er ekki með frábært lið en þeir eru lúmskir og það er erfitt að spila á móti þeim. Svo eigum við mjög erfiðan leik úti á móti Noregi. Vonandi náum við líka jákvæðum úrslitum í næsta mánuði," sagði Gylfi.

Lagerbäck: Verðum meðal þeirra bestu í Evrópu

„Sendingarnar í fyrri hálfleik voru stórkostlegar. Ég hef ekki séð þá spila svona vel ef frá er talinn seinni hálfleikurinn í Sviss,“ sagði Lars Lagerbäck, þjálfari karlalandsliðsins á blaðamannafundi eftir leikinn.

Gylfi Þór Sigurðsson og Eiður Smári Guðjohnsen náðu einkar vel saman í fyrri hálfleiknum. Sá fyrrnefndi var raunar í sérflokki í leiknum.

„Það besta við Gylfa er að þótt hann sé leikmaður með mikil gæði þá leggur hann afar hart að sér í níutíu mínútur. Það sér maður ekki oft hjá leikmönnum í hans gæðaflokki,“ sagði Lagerbäck um frammistöðu Gylfa.

Svíinn benti á að nú væri örlög landsliðsins í þess höndum. Liðið gæti tryggt sæti sitt í umspilinu án þess að þurfa að treysta á aðra. Mikilvægt sé þó að halda sér á jörðinni og einbeita sér að leiknum gegn Kýpur.

„Þeir hafa ekki unnið marga leiki en við töpuðum gegn þeim úti. Ég tek engu sem sjálfsögðu hlut í fótbolta,“ sagði Svínn. Ísland tekur á móti Kýpur 11. október og sækir Noreg heim fjórum dögum síðar.

Aðspurður sagðist Lagerbäck alveg hafa ímyndað sér að landsliðið ætti möguleika þegar tveir leikir væru eftir í riðlinum. Þá greip Heimir Hallgrímsson, aðstoðarmaður hans, inn í.

„Vertu hreinskilinn. Þú hafðir trú á okkur og sagðir að við myndum ná öðru sæti. Þú sagðir líka að við myndum verða í kringum 50. sæti á þessum tímapunkti.“  Lars tók undir orð Heimis og hrósaði leikmönnum sínum.

„Svo tökum við inn nokkra leikmenn úr U21 árs landsliðinu með tímanum og verðum meðal þeirra bestu í Evrópu eftir nokkur ár.“

Eiður Smári: Þurfum að vera óhræddir við að tefla fram okkar bestu mönnum

„Ég held að sérstaklega í fyrri hálfleik höfum við spilað frábærlega á köflum og það var virkilega gaman að vera inn á,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen sem kom inn í byrjunarlið Íslands fyrir leikinn og þakkaði traustið með góðum leik.

„Auðvitað fáum við smá gusu í andlitið með að lenda undir en það er eins og ekkert hafi áhrif á okkur þessa dagana. Við létum það alls ekki ýta okkur út af laginu og héldum bara áfram og trúðum því sem við vorum að gera og það virkaði.

„Kannski duttu gæðin úr leiknum eftir að við komumst í 2-1. Við bökkuðum aðeins of mikið og við ætluðum bara að halda í þrjú stig sem tókst. Þetta var ekki fallegt í lokin en þetta þarf ekki alltaf að vera fallegt.

„Ég er sérstaklega ánægður með varnarlínuna í dag. Hún hefur fengið á sig smá krítík fyrir síðasta leik og hvort sem hún sé sanngjörn eða ekki þá sýndum þeir í dag hvers þeir eru megnugir og bara allir saman. Ég held að það hafi hverið stór munur á því að bæði miðjan og fram á við vörðumst við mjög þétt,“ sagði Eiður sem var klár í að skora sjálfur þegar Birkir Bjarnason jafnaði metin.

„Ég var eignilega með hann en Birkir öskraði svo hátt að ég lét hann fara. Mér brá svo að heyra í Birki að ég hálfpartinn lét hann fara og hann setti hann inn. Ég vil nú meina að hann hafi komið við mig síðast,“ sagði Eiður og glotti við tönn.

„Ég er í fótbolta til að byrja leiki. Ég er í þessu til að byrja leiki og auðvitað fannst mér það frábært en aðalatriðið er að við unnum og sérstaklega að við höfum spilað svona vel. Við náðum að halda spilinu áfram frá því í seinni hálfleik í Sviss. Við tókum hann með okkur, sérstaklega í fyrri hálfleik, eða í um fimmtíu mínútur sem er frábært og sýnir gæðin í liðinu og sýnir það líka að við þurfum að vera óhræddir við að tefla fram okkar bestu mönnum.

Ragnar: Við tökum annað sætið

„Þetta var frábær sigur. Ég man ekki eftir að þeir hafi fengið færi,“ sagði Ragnar Sigurðsson miðvörður Íslands sem var virkilega ánægður með varnarleik Íslands í kvöld gegn Albaníu.

„Markið þeirra kom úr langskoti og við vorum þéttir allan leikinn og gáfum þeim engin færi að mínu mati.

„Ég sagði fyrir leikinn að við myndum vinna leikinn og við gerðum það,“ sagði Ragnar sem var mjög ánægður með frammistöðu sína í leiknum.

„Það er langt síðan ég hef verið fullkomlega sáttur eftir landsleik. Það er alltaf eitthvað klúður í gangi en í kvöld var þetta fullkomlega spilaður landsleikur varnarlega í heild,“ sagði Ragnar sem spurði blaðamenn að því loknu hvernig hinir leikirnir í riðlinum fóru.

„Erum við þá ekki í öðru? Gott. Eigum við séns á fyrsta? Við tökum annað sætið,“ sagði Ragnar þegar blaðamenn svöruðu að það væri tæpt að taka fyrsta sætið af Sviss sem er með fimm stiga forskot á Ísland þegar tvær umferðir eru eftir.

Við Heimir fögnum saman ef hann er til

Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck voru eldhressir á blaðamannafundi eftir leikinn.

Svínn bað Heimi um að taka frumkvæðið á fundinum og fara yfir leikinn. Lagerbäck vildi að öllum væri ljóst að þeir ynnu sem teymi og bæru mikla virðingu hvor fyrir öðrum.

Heimir sagðist ánægður með hvernig taktíkin sem íslenska liðið lagði upp með hefði virkað. Miklu betur en í síðustu leikjum.

„Persónulega er ég ánægður með hvernig þeir sem fengu mesta gagnrýni eftir leikinn í Sviss svöruðu fyrir sig,“ sagði Heimir. Taldi Heimir upp Ara Frey Skúlason, Birki Má Sævarsson, Kára Árnason og Hannes Þór Halldórsson.

„Þeir vissu að við vorum að hugsa um að breyta liðinu. Þetta eru menn. Þeir sýna að þeir eru menn til að taka gagnrýni,“ sagði Heimir hrósaði viðhorfi Helga Vals Daníelssonar sérstaklega.

Helgi Valur fékk bágt fyrir frammistöðu sína í jafnteflinu í Sviss þar sem honum var skipt af velli. Heimir sagði viðbrögð Helga til fyrirmyndar en miðjumaðurinn ætlar að svara fyrir sig næst þegar hann fær tækifæri í liðinu.

Eina breytingin á byrjunarliðinu frá því í Sviss var innkoma Eiðs Smára fyrir Helga Val. Fyrir vikið spilaði Gylfi Þór Sigurðsson á miðjunni með Aroni Einari.

„Við erum svolítið hræddir við að hafa Gylfa Þór á miðjunni og missa jafnvægið hvað varnarleikinn varðar á miðjunni,“ sagði Heimir. Hann var nokkuð sáttur með leik Eiðs Smára á miðjunni.

„Það er alltaf vafi hvort hann spili eða ekki af því hann spilar ekki níutíu mínútur með félagsliði sínu,“ sagði Heimir. Hann benti á að hefði Eiður spilað meira í Sviss hefði það líkast til setið í honum. Þess í stað var hægt að fullnýta hann í kvöld.

Leikmenn halda nú heim til sín eftir samveru undanfarinnar viku. Þjálfararnir ætla þó að fagna sigrinum saman.

„Ég ætla að fagna með Heimi ef hann er til. En kannski á hann betri vini en mig,“ sagði Lagerbäck léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×