Fótbolti

Grænhöfðaeyjar slógu Túnis út úr HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Grænhöfðaeyja fagna.
Leikmenn Grænhöfðaeyja fagna. Mynd/AFP
Grænhöfðaeyjar verða meðal þeirra tíu Afríkuþjóða sem keppa um fimm laus sæti á HM í fótbolta í Brasilíu eftir að landslið Grænhöfðaeyja tryggði sér sigur í sínum riðli með því að vinna 2-0 útisigur á Túnis.

Platini og Nhuck skoruðu mörk Grænhöfðaeyja í leiknum en það búa aðeins um 500 þúsund manns á eyjunum sem eru eyjaklasi í Norður-Atlantshafi undan vesturströnd Afríku.

Grænhöfðaeyjar fengu tólf stig í riðlinum eða einu meira en Túnismenn. Lið Grænhöfðaeyja hafði komist í átta liða úrslitin í síðustu Afríkukeppni og nú sýndu þeir að sá árangur var engin tilviljun.

Suður-Afríkumenn sátu einnig eftir í sínum riðli þar sem að Eþíópíumenn komust áfram í útsláttarkeppnina.

Þær Afríkuþjóðir sem eru komnar áfram auk Grænhöfðaeyja og Eþíópíu eru Búrkína Fasó, Nígería, Alsír, Egyptaland, Fílabeinströndin, Gana og Senegal en á morgun kemur í ljós hvort Kamerún eða Líbía verður tíunda þjóðin í umspilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×