Innlent

Dansleikir, flugeldasýningar og drullusvað

Björn Jörundur flutti Þjóðhátíðarlagið 2013 í Dalnum í Vestmannaeyjum í gærkvöldi.
Björn Jörundur flutti Þjóðhátíðarlagið 2013 í Dalnum í Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Mynd/Óskar Pétur Friðriksson
Verslunarmannahelgin fer vel af stað og eru útihátíðir haldnar víða um land. Umferð hefur til þessa gengið vel. Sex fíkniefnamál komu upp í Vestmannaeyjum en annars hefur verið rólegt á öðrum hátíðum.

Fjölmennasta og elsta útihátíð verslunarmannahelgarinnar er nú í fullum gangi í Vestmannaeyjum. Í gær var haldin kvöldvaka þar sem þjóhátíðarlag Björns Jörundar var frumflutt. Kveikt var í brennu og í framhaldinu skemmti fólk sér á dansleikjum langt fram eftir morgni. Í kvöld verður flugeldasýning auk þess sem tónlistarmenn á borð við Ásegeir Trausta, Retro Stefson og GusGus sjá um að skemmta hátíðargestum.

Leikir á Mýrarboltanum hófust klukkan tíu í morgun og að sögn skipuleggjenda er drullan upp á sitt besta þetta árið, en vellirnir eru rennblautir og drullugir. Í kvöld mun svo dansinn duna fyrir vestan þar sem fjölmargir tónlistarmenn stíga á stokk, bæði utan- og innandyra.

Allt hefur gengið vel á Akureyri en þar er fjölskylduhátiðin Ein með öllu haldin yfir helgina. Þessa stundina þó örlítið kaldara fyrir norðan heldur verið hefur í sumar.

Þá hefur allt gengið vel á Neskaupsstað þar sem útihátíðin Neistaflug er haldin hátíðleg.

Sextánda Unglingalandsmót UMFÍ er nú í fullum gangi á Höfn í Hornafirði. Þar er meðal annars keppt í sundi, gólfi, fimleikum, mótorkross, karate og starfsíþróttum.

Fjölbreytt dagskrá er um land allt og óhætt er að segja að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Á Neskaupsstað er útihátíðin Neistaflug haldin hátíðleg. Þar er meðal annars boðið upp á dorgkeppni og mýrarslöngubolta. Þá er Edrúhátíð SÁÁ haldin í Laugalandi í Holtum, Sæludagar eru í Vatnaskógi, Síldarævintýri á Siglufirði, Traktorstorfæra á Flúðum að ógleymdun Innipúkanum sem haldinn er í miðbæ Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×