Innlent

Ekki viðbótarfjármagn vegna geislafræðingadeilu

Heimir Már Pétursson skrifar
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra vonast til að samningar náist á milli spítalans og geislafræðinga.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra vonast til að samningar náist á milli spítalans og geislafræðinga.
Heilbrigðisráðherra treystir því að geislafræðingar og yfirstjórn Landsspítalans nái saman um niðurstöðu í deilu sinni á grundvelli gildandi stofnanasamnings og því er ljóst að viðbótarfjármagn kemur ekki til spítalans frá stjórnvöldum til að koma í veg fyrir að geislafræðingar gangi út af spítalanum á fimmtudag.



Fulltrúar geislafræðinga og stjórnenda Landsspítalans áttu fund með Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra í morgun, en um 40 geislafræðingar hafa sagt upp störfum á Landsspítalnum og hætta störfum næst komandi fimmtudag fái þeir ekki einhverja breytingu á sínum kjörum.  Heilbrigðisráðherra segist hafa óskað eftir fundinum með geislafræðingum og stjórnendum spítalans til að fá upplýsingar um stöðu mála.

„Og þau gerðu mér ágæta grein fyrir því um hvað málið snýst. Ég vænti þess að þau vinni sína vinnu og treysti því að aðlilar málsins innan þessarar stofnunar nái saman um það að heilbrigðisþjónusta í landinu geti gengið stóráfallalaust á þessum ágæta vinnustað,“ segir heilbrigðisráðherra.

Kristján Þór segir að til að aðilar málsins nái saman þurfi þeir að komast að einhverri málamiðlun. Honum sýnist að það ætti að vera hægt innan svigrúms sem gildandi samningar heimili. Málinu svipar til þess þegar hjúkrunarfræðingar sögðu upp störfum í stórum stíl fyrir nokkrum mánuðum, en þá juku stjórnvöld fjárveitingar til spítalans um 400 milljónir til að bæta mætti kjör þeirra. Er einhver svipuð lausn möguleg í þessu máli

„Það verður að vinna úr þessu máli innan þeirra heimilda sem Landsspítalanum eru gefnar og kjarasamningur segir til um, sem geilsafræðingar og ríkisvaldið eiga aðild að. Innan þeirra gildandi samninga sem um þessi mál véla verða menn að finna lausn á þessari deilu,“ segir Kristján Þór.

Almennar launabreytingar komi væntanlega fram við gerð kjarasamninga, en nú sé verið að ræða útfærslu á stofnanasamningi og innan þess ramma verði menn að finna lausn.

„Í því umhverfi verða geislafræðingar og stjórnendur Landsspítalans að spila en ekki fara út fyrir það,“ segir ráðherra.

Ef ekki náist samningar og geilsafræðingar yfirgefi störf sín taki við neyðaráætlun fyrir spítalann.

„Ég bara treysti því ennþá að til þess þurfi ekki að koma. Reiði mig á það að þetta fólk sem ber ábyrgð á þessu verkefni finni á því viðhlýtandi lausn,“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×