Innlent

Ekki ástæða til bjartsýni - dómur yfir Bradley Manning í dag

Boði Logason skrifar
Þetta eru náttúrulega makalaus sýndarréttarhöld sem hafa verið haldin yfir þessum unga manni, sem er ekkert annað en hetja fyrir að upplýsa almenning um alvarleika stríðsins,“ segir Kristinn.
Þetta eru náttúrulega makalaus sýndarréttarhöld sem hafa verið haldin yfir þessum unga manni, sem er ekkert annað en hetja fyrir að upplýsa almenning um alvarleika stríðsins,“ segir Kristinn.
Talsmaður WikiLeaks segir að réttarhöldin yfir uppljóstraranum Bradley Manning ekki hafa verið neitt annað en sýndarréttarhöld og ekki sé ástæða til bjartsýni þegar dómur yfir honum verður kveðinn upp síðdegis.

Manning hefur viðurkennt að hafa lekið hundruð þúsunda leynilegra skjala á meðan hann var hermaður í Írak. Hann hefur nú setið í fangelsi í þrjú ár og segir Kristinn Hrafnsson, talsmaður WikiLeaks, að fulltrúi Sameinuðu þjóðanna hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi sætt pyntingum af hálfu bandarískra stjónvalda.

„Það er í raun alveg ótrúlegt að hann skuli hafa haldið stillingu og sýnir karakter-styrk að hann stendur ennþá keikur, þrátt fyrir þá skelfilegu meðferð sem hann hefur mátt þola. Hann var í dýrabúri í eyðimörkinni áður en hann var sendur til Bandaríkjanna, þar sem hann var lokaður inni í einangrun í klefa sem er 2X3 metrar í næstum því ár. Niðurlægðu á ýmsa lund, gleraugun tekin af honum, hann afklæddur og svefn hans truflaður. Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna komst að þeirri niðurstöðu að meðferðin á honum var ekkert annað en pyntingar," segir Kristinn.

Eftir réttarhöld síðustu mánuði hefur dómarinn nú komist að niðurstöðu. Dómurinn verður birtur síðdegis.

„Það er ekki ástæða til mikillar bjartsýni að Lind dómari muni sýna neina mildi þegar kemur að þessu úrskurði sem hún fellir síðdegis í dag. Hún hefur sýnt það í gegnum réttarhöldin að sýna málstað ákæruvaldisins ótrúlega virðingu, meðal annars leyft það að ákæruliðum sé breytt á lokadegi réttarhaldanna. Hún hefur neitað að henda út alvarlegasta ákæruliðnum, sem er landráð eða að aðstoða óvininn," segir Kristinn.

Manning er ákærður í tuttugu og tveimur liðum, og er sá alvarlegasti þessi sem snýr að landráði. Verði hann sakfelldur á hann yfir höfði sér ævilangt fangelsi, og jafnvel dauðadóm.

„Ef hann verður sakfelldur fyrir þennan ákærulið, er það undir ákvörðun dómara hvort hann verði jafnvel dæmdur til dauða, því dauðarefsing liggur við þessum ákærulið þó saksóknari hafi ekki farið fram á það, heldur ævilangt fangelsi. En samanlögð refsing fyrir alla þá tuttugu tvo ákærulið sem standa þarna á borðinu er ævilangt fangelsi, plús 154 ár í fangelsi. Þetta eru náttúrulega makalaus sýndarréttarhöld sem hafa verið haldin yfir þessum unga manni, sem er ekkert annað en hetja fyrir að upplýsa almenning um alvarleika stríðsins,“ segir Kristinn og vísar meðal annars til þess að stór hluti réttarhaldanna hafi farið fram bak við luktar dyr. 

Dómurinn verður kveðinn upp klukkan fimm að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×