Innlent

Banaslysið á Langjökli - Fór í loftköstum á sleðanum

Gissur Sigurðsson skrifar
Frá Langjökli. Banaslysið varð á Langjökli í gær.
Frá Langjökli. Banaslysið varð á Langjökli í gær. Mynd/Valli
Tævanski ferðamaðurinn, sem lést af slysförum á Langjökli í gær, ók vélsleða sínum á mikilli ferð og í loftköstum þar til hann valt. Það er talið hafa orðið konu hans til lífs að hún féll af sleðanum áður en hann valt.

Rannsóknarlögreglumaður frá Selfossi tók skýrslu af eiginkonunni í morgun, en hún liggur ökklabrotin á Landsspítalanum. Vélsleðinn er í vörslu lögreglu, og verður öryggi hans skoðað nánar, en fólkið sjálft var í viðeigandi öryggisklæðnaði, að sögn lögreglu.

Sjónarvottar, sem gáfu lögreglu skýrslur í gær, segja að maðurinn hafi rifið sig út úr hópnum og gefið allt í botn með fyrrgreindum afleliðingum, auk þess sem einhverjir óttuðust að hann æki á sig.

Talið er að sleðinn hafi oltið allt að tvær veltur. Lögregla er meðal annars að kanna hvort maðurinn hafi einhverskonar ökuréttindi í heimalandi sínu, en hann staðhæfði það við leiðsögumanninn. Lík mannsins var flutt til Reykjavíkur og verður væntanlega krufið á morgun.  

Haft var eftir Herberti Haukssyni frá fyrirtækinu Fjallamönnum að maðurinn hafi ekið sleðanum í óleyfi. Hann var ekki með ökuréttindi og enga reynslu af neinum öku­tækjum. Kvittaði hann undir plagg þar sem undirritaður staðfestir að hann hafi slík réttindi og laumaðist síðan undir stýri og ók af stað með fyrrgreindum afleiðingum. Herbert segir jafnframt að þakka megi fyrir að enginn úr ferðahópnum hafi orðið fyrir sleðanum meðan honum var ekið af svo óreyndum ökumanni.

Tuttugu og níu manns voru í hópnum og voru starfsmenn Fjallamanna að greiða úr því að þeir fengju áfallahjálp frameftir kvöldi í gær.


Tengdar fréttir

Banaslysið á Langjökli - Segir hinn látna hafa ekið í óleyfi

Að sögn Herberts Hauks­sonar frá fyrirtækinu Fjallamönnum átti banaslysið á Langjökli í gær sér stað á sleða frá þeim en maðurinn ók á honum í óleyfi. Hann var ekki með ökuréttindi og enga reynslu af neinum öku­tækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×