Innlent

Sól á Suðurlandi um helgina

Boði Logason skrifar
Hressir drengir í útilegu
Hressir drengir í útilegu
Nú fer að styttast í stærstu ferðahelgi ársins, verslunarmannahelgina sjálfa. Og það er fátt sem við Íslendingar spáum meira í þegar við ferðumst út á land en veðrið.

Það er óhætt að segja að besta veðrið um helgina verði sunnanlands. Á föstudag má búast við allt að 17 til 18 stiga hita á Suðurlandi og þá sýna kortin einnig að það verði léttskýjað á svæðinu.

„Það er ekki afgerandi heiðskýrt, en það er mjög háskýjað á þessu svæði,“ segir Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Á Norður- og Austurlandi verður öllu kaldara, hitinn ekki nema 4 til 7 stig og jafnvel úrkoma alla helgina. Hrafn segir að það séu norðanáttir í kortunum alla helgina og svalast verði fyrir norðan.

Hann segir að þeir sem hafi áhuga á veðrinu geti skoðað veðurspánna inni á vedur.is. Spárnar sem nái lengst séu uppfærðar tvisvar á dag en þær sem sýni næstu daga allt að fjórum sinnum.

„Það er alltaf verið að reikna þetta aftur og aftur. En þessir helstu drættir eru svolítið skýrir allavega á næstu 2-3 dögum fram í tímann. Fólk ætti að skoða veðurspár á hverjum degi því þær byggja alltaf á nýrri gögnum. Eftir því sem það styttist í dagana aukast gæðin umtalsvert,“ segir Hrafn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×