Innlent

Margra ára fangelsisvist bíður Manning

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Uppljóstrarinn Bradley Manning var í dag fundinn sekur í 20 ákæruatriðum af 22. Hann var sýknaður af ákærum um að hafa aðstoðað óvini Bandaríkjanna.

Dómurinn var kveðinn í Fort Mead í Maryland laust eftir klukkan fimm í dag. Nokkrir stuðningsmenn hans hér á landi söfnuðust saman á Kaffi Reykjavík til að fylgjast með málinu.

Hinn 25 ára Manning, sem starfaði við öflun upplýsinga fyrir Bandaríkjaher í Írak, lak hátt í sjöhundruð og fimmtíu þúsund leyniskjölum til aWikiLeaks á árunum 2009 til 2010.

„Ég er rosalega ánægð," segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. „Ég eiginlega trúi þessu ekki. Ég ásamt öllum þeim sem fylgst hafa með þessu langa ferli, ekkert okkar þorði að vona að hann yrði áfrýjaður af þessum alvarlegasta ákærulið."

„Þetta er sigur fyrir upplýsingafrelsið, þó svo að Manning muni dúsa lengi bak við lás og slá. Ég var einmitt að lesa um það að einn af þeim liðum sem hann var ákærður fyrir tekur til þess þegar hann lak gögnum um Ísland. Hann gæti þurft að sita í tvö ár í fangelsi fyrir Íslendinga."

Af þeim gögnum sem Manning kom áleiðis til WikiLeaks er myndbandið Collateral Murderl líklega þekktast. Það var tekið upp árið 2007 en þar mátti sjá bandaríska hermenn skjóta á hóp manna úr þyrlu. Tveir af þeim voru fréttamenn Reuters en nokkrir óbreyttir borgarar voru með þeim í för.

Við framleiðslu myndbandsins naut Manning liðsinnis WikiLeaks sem og Birgittu.

„Maður veit aldrei hvað gerist í svona réttarhöldum. Ég er að minnsta kosti fegin að ég er ekki óvinurinn samkvæmt skilgreiningu bandarískra yfirvalda, þannig að auðvitað er mér létt.“

Á morgun kemur í ljós hver refsing Mannings verður. Ljóst er hann að þarf að sitja lengi bak við lás og slá og verður aldraður maður þegar hann fær frelsið á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×