Innlent

"Sætum annars uppi með niðurrifsskipulag“

Heimir Már Pétursson skrifar
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að ekki sé verið að slá skollaeyrum við kröfum mótmælenda með samþykkt nýs deiliskipulags fyrir Landssímareitinn við Austurvöll í borgarráði í morgun.

„Við höfum þvert á móti í gegnum ferlið undanfarið eitt og hálft ár komið til móts við mjög margar af þeim athugasemdum og áhyggjur sem settar hafa verið fram varðandi uppbyggingaráformin,“ segir Dagur.

Ein af kröfum BIN-hópsins (Björgum Ingólfstorgi og NASA) sem afhentar voru Degi fyrir fund borgarráðs í morgun var að deiliskipulagstillagan færi í íbúakosningu. „Vandinn við það er að ef við hefðum ekkert breytt skipulaginu sætum við uppi með niðurrifsskipulagið frá áttunda áratugnum, sem gerir ráð fyrir að gömlu húsin megi rífa, gerir ráð fyrir hærri byggingum en við vorum að samþiggja og meira byggingarmagni,“ fullyrðir Dagur.

Nýja skipulagið sé því mun betra og með því sé ekki snert við Ingólfstorgi og NASA salurinn verði endurbyggður. Þá verði byggingarmagnið á Landssímareitnum mun minna en áður var áætlað og því hafi verið komið til móts við athugasemdir við fyrra skipulag.

„Það hefur líka verið bent á það að þessi hlið Landssímahússins sem snýr að Austurvelli með skrifstofuhúsnæði gamla Landssímans, er í raun líflausasta hliðin. Þar mættu gjarnan vera veitingastaðir eða önnur þjónusta á jarðhæðinni sem myndu opna sig út að Austurvelli. Því það er auðvitað búið að sanna sig á undanförnum tíu árum að þannig verður hann líflegastur og skemmtilegastur,“ segir Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×