Innlent

Þrjú skemmtiferðaskip á sama tíma í Hafnarfjarðarhöfn

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Skemmtiferðaskipið Astor er eitt skipanna þriggja.
Skemmtiferðaskipið Astor er eitt skipanna þriggja.
Mikið verður um að vera við Hafnarfjarðarhöfn um miðja næstu viku en þá munu þrjú skemmtiferðaskip leggjast þar að bryggju. Rúmlega eitt þúsund farþegar munu koma með skipunum.

Á þriðjudag og miðvikudag koma skemmtiferðaskipin Le Soleal, systurskipið Le Boreal og Astor til Hafnarfjarðar. Þau munu liggja saman við Suðurbakkann í Hafnarfjarðarhöfn. Le Soleal er glænýtt skemmtiferðaskip og lagði af stað í sína fyrstu för frá Feneyjum 1. júlí.

„Þetta er í fyrsta skipti sem þrjú skemmtiferðaskip koma til Hafnarfjarðar á sama tíma þannig að það er ljóst að það verður mikið um að vera í bænum og við höfnina þessa tvo daga. Þetta er auðvitað mjög jákvætt fyrir Hafnarfjörð og alla verslun og þjónustu í bænum,“ segir Sigvaldi Hrafn Jósafatsson, starfsmaður Gáru, en fyrirtækið sér um að þjónusta skemmtiferðaskipin þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×