Fótbolti

HK-ingurinn varar við Breiðabliki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Kolviðsson, hér sem leikmaður Kärnten sem mætti Grindavík í Evrópukeppni félagsliða.
Helgi Kolviðsson, hér sem leikmaður Kärnten sem mætti Grindavík í Evrópukeppni félagsliða. Nordic Photos / Getty Images
Helgi Kolviðsson segir að austurríska liðið Sturm Graz megi ekki vanmeta lið Breiðabliks þegar þau mætast í forkeppni Evrópudeildar UEFA í vikunni.

Fyrri leikur liðanna verður á Kópavogsvelli á fimmtudagskvöldið og liðin mætast svo aftur í Graz í næstu viku.

Helgi, fyrriverandi landsliðsmaður og fyrirliði HK, starfar nú sem þjálfari austurríska liðsins Austria Lustenau og var fenginn til að gefa álit sitt á viðureigninni í dagblaðinu Kleine Zeitung.

„Það er mikil ástríða í íslenskri knattspyrnu - gleði og smá peningar líka,“ sagði Helgi sem er í dag 41 árs gamall. Hann segir mikið hafa breyst í íslenskri knattspyrnu með tilkomu knattspyrnuhallanna.

„Áður gátum við bara spilað á grasi í 3-4 mánuði á ári. Annars spiluðum við bara á malarvöllum. En í höllunum er hægt að æfa allan ársins hring.“

Hann segir að þrátt fyrir það séu helstu kostir íslenskra knattspyrnumanna styrkur þeirra og baráttuþrek.

„Íslenskir knattspyrnumenn eru mjög agaðir. Leikmenn Breiðabliks búa ef til vill ekki yfir jafn mikilli tækni og leikmenn Sturm en Sturm-menn þurfa að hafa gætur á þeim því Íslendingar eru ávallt vel á verði og hafa tröllatrú á sínum möguleikum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×