Íslenski boltinn

Skora á Hermann að "drulla" sér vestur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Pétur Georg Markan mætti á Evrópumeistaramótið í Mýrarbolta í fyrra.
Pétur Georg Markan mætti á Evrópumeistaramótið í Mýrarbolta í fyrra.
Forsvarsmenn Mýrarboltans, sem fram fer árlega á Ísafirði um Verslunarmannahelgina, hafa skorað á Hermann Hreiðarsson, þjálfara ÍBV, að gegna stöðu yfirmanns dómaramála fari svo að ÍBV tapi gegn BÍ/Bolungarvík í kvöld.

Eyjamenn sækja Ísafjörð heim í kvöld þar sem liðið mætir sameinuðu liði Ísfirðinga og Bolvíkinga í átta liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu. Mýrarboltamenn hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir skora ennfremur á Hermann að taka David James, markvörð ÍBV, með sér vestur um Verslunarmannahelgina. Um eina tækifæri James sé að ræða til að verða Evrópumeistari.

„Nú vill svo til að í dag mætir fjöldi erlendra ferðamanna á svæðið, þeir koma þó ekki með skipi heldur flugvél og alla leið frá lítilli eyju sem kallast Vestmannaeyjar. Þeir komu þó ekki af fúsum og frjálsum vilja heldur vegna þvingana frá harðstjórunum í KSÍ.

„Það vill verða erfitt að fá Eyjamenn til Vestfjarða nema þá til þess að sækja sér ísfirska maka og draga þá aftur út á eyjuna litlu," segir í yfirlýsingunni þar sem skorað er á Hermann.

„Mýrarboltafélag Íslands býður Hermann Hreiðarsson og félaga í ÍBV velkommna vestur á Ísafjörð og vill nýta tækifærið og skora á Hermann. Áskorunin felst í því að ef ÍBV vinnur ekki BÍ/Bolungarvík í leiknum í kvöld að þá mæti Hermann vestur um Verslunarmannahelgina og verði yfirmaður dómaramála á EM í Mýrarbolta."

Áskoruninni er einnig beint að David James.

„Einnig skal hann draga með sér David James af góðmennskunni einni saman því á Ísafirði er eini sénsinn fyrir þennan fyrverandi landsliðsmarkmann að verða Evrópumeistari í einhverju."

Áskorun Djúpmanna í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×