Enski boltinn

Ronaldo heldur að hann kunni allt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Jose Mourinho segir að Cristiano Ronaldo sé hættur að hlusta á ráðleggingar þjálfara og að hann telji sig fulllærðan í knattspyrnufræðunum.

Mourinho tók við Chelsea í vikunni eftir þriggja ára dvöl hjá Real Madrid, þar sem Ronaldo lék undir hans stjórn. Þeir eru báðir frá Portúgal og var vel til vina í upphafi.

En svo virðist sem að þeim hafi sinnast fyrr á þessu ári. Ronaldo brást illa við gagnrýni Mourinho eftir bikarleik í janúar síðastliðnum og tjáði sig ekki opinberlega um þjálfarann sinn eftir það. Mourinho var með Ronaldo á bekknum í síðustu þremur leikjum Real Madrid á leiktíðinni.

„Cristiano Ronaldo telur ef til vill að hann viti allt og að þjálfarinn geti ekki hjálpað honum að bæta sig,“ sagði Mourinho í sjónvarpsviðtali á Spáni á dögunum.

„Vandmál mitt með hann var mjög einfalt. Ég gagnrýndi hann út frá leikstíl og taktík en hann tók því ekki mjög vel.“

Mourinho sagði enn fremur að Ronaldo hafi skorað mikið undir sinni stjórn vegna þess leikkerfi sem hann lét liðið spila.

„Hann spilaði þrjú frábær tímabil hjá mér. Ég veit ekki hvort það voru bestu ár ferilsins hjá honum. En við náðum að stilla upp í frábært leikkerfi sem gekk út á að nýta alla hans helstu kosti, sem birtist í því hversu mikið hann skoraði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×