Enski boltinn

Suarez skellir skuldinni á fjölmiðla

Það er ansi margt sem bendir til þess að framherjinn Luis Suarez fari frá Liverpool í sumar. Hann hefur nú í annað sinn á skömmum tíma gefið í skyn að hann sé að fara. Hermt er að hann sé búinn að ná samkomulagi við Real Madrid en Liverpool hefur samt ekki samþykkt tilboð frá spænska félaginu.

Suarez sagði fyrr í vikunni að hann langaði að spila á Spáni og nú segir hann að þetta sé góður tími fyrir hann að fara.

"Eftir allt sem ég hef gengið í gegnum á Englandi þá er þetta fínn tími fyrir breytingar. Ég hef átt mjög erfitt uppdráttar á Englandi og það er búið að segja og skrifa margt um mig sem eru lygar. Það hafa allir sín þolmörk og þetta tekur líka sinn toll á fjölskyldunni," sagði Suarez.

"Ég hef samt alls ekkert á móti Liverpool. Þvert á móti líður mér vel hjá félaginu. Ég á aftur á móti dóttur sem ég vil ekki að sé að heyra slæma hluti um föður sinn. Ég veit ekki hvenær ég fer eða hvort ég verði áfram.

"Ef ég fer frá Liverpool þá er það út af meðferðinni sem ég hef fengið frá fjölmiðlum. Þeir hafa farið mjög illa með mig. Fjölskyldan og ímyndin skiptir mig mestu máli. Fólkið hjá Liverpool veit hvað ég hef þurft að ganga í gegnum, að það var farið illa með mig. Mér líður að mörgu leyti illa á Englandi."

Suarez er staddur í herbúðum úrúgvæska landsliðsins þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×