Enski boltinn

Kolo Toure á leið til Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolo Toure, leikmaður Manchester City.
Kolo Toure, leikmaður Manchester City. Nordic Photos / Gettty Images

Enskir fjölmiðlar fullyrða að stutt sé í að Liverpool gangi frá samningum við varnarmanninn Kolo Toure sem er að verða samningslaus hjá Manchester City.

Toure hefur verið á mála hjá City undanfarin fjögur ár en hann mun vera áhugasamur um að halda kyrru fyrir í norðuvesturhluta Englands, þar sem börn hans eru í skóla.

Hann er nú staddur í Bandaríkjunum með City þar sem liðið leikur tvo æfingaleiki. En búist er við því að hann muni gangast undir læknisskoðun hjá Liverpool þegar hann kemur til baka.

Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, vill fá Toure til að fylla í skarð Jamie Carragher sem hætti eftir sextán ára feril hjá félaginu nú um helgina.

Enskir miðlar greina þó frá því að Sebastian Coates, varnarmaður frá Úrúgvæ, sé líklega á leið frá Liverpool en hann kom fyrir tveimur árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×