Fótbolti

Lazio og Celtic bikarmeistarar í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty

Lazio og Celtic tryggðu sér bikarmeistaratitla í sínum löndum í dag, Lazio á Ítalíu með því að vinna nágranna sína í Roma í úrslitaleik en Celtic í Skotlandi með því að vinna Hibernian örugglega í úrslitaleik á Hampden Park.

Senad Lulic skoraði sigurmark Lazio í 1-0 sigri á Roma en markið kom á 71. mínútu leiksins. Lazio hefur unnið fjóra af fimm síðustu leikjum sínum á móti Roma og varð nú ítalskur bikarmeistari í sjötta sinn. Sigurinn gefur Lazio-liðinu sæti í Evrópudeildinni á næsta tímabili.

Gary Hooper skoraði tvisvar í 3-0 sigri Celtic á Hibernian í bikarúrslitaleiknum í Skotlandi en mörkin hans komu á 8. og 31. mínútu.Joe Ledley skoraði þriðja markið á 79. mínútu. Celtic vann tvöfalt á þessu tímabili og var að vinna skoska bikarinn í 36. sinn.

Celtic hefur nú unnið fjóra titla undir stjórn Neil Lennon (skoska titilinn 2012 og 2013 og skoska bikarinn 2011 og 2013) en hann tók við liðinu í mars 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×