Enski boltinn

Ég vann stuðningsmenn á mitt band

Rafa Benitez segist ganga stoltur frá borði hjá Chelsea og hann heldur því enn fremur fram að honum hafi tekist að vinna flesta stuðningsmenn félagsins á sitt band.

Það var mjög óvinsæl ákvörðun er Roman Abramovich, eigandi Chelsea, ákvað að gera hann að stjóra félagsins. Stuðningsmenn liðsins stóðu fyrir miklum mótmælum og bauluðu lengi vel á fyrstu leikjum liðsins undir hans stjórn.

Benitez lét það ekki hafa áhrif á sig og kom liðinu í Meistaradeildina og vann einnig Evrópudeildina.

"Fjöldi stuðningsmanna studdi mig undir lokin þó svo sumir hafi átt erfitt með að skipta um skoðun. Það er ekki hægt að vinna titla á fyrsta mánuðinum með lið, aðeins í lok tímabils," sagði Benitez.

"Það þarf að vera þolinmóður í fótbolta en það reynist mörgum erfitt. Við stóðum okkar plikt og ég vona að fólk hafi notið uppskerunnar. Við unnum okkar vinnu. Það var það sem skipti máli."

Benitez er væntanlega á leið til Napoli á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×