Enski boltinn

Moyes: Rooney er einstakur leikmaður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
David Moyes ætlar að ræða við Wayne Rooney áður en ákvörðun verður tekin um framtíð kappans sem fór nýlega fram á sölu frá Manchester United.

Moyes mun í sumar taka við starfi knattspyrnustjóra United af Sir Alex Ferguson. Rooney var ekki í leikmannahópi United í lokaleik liðsins undir stjórn Ferguson á Old Trafford, en liðið vann þá 2-1 sigur á Swansea.

Moyes þekkir Rooney vel enda hóf sá síðarnefndi feril sinn hjá Everton. Rooney spilaði sinn fyrsta leik í ágúst árið 2002 en það var Moyes sem gaf honum það tækifæri. Tveimur árum síðar var Rooney seldur til United fyrir 20 milljónir punda.

Samkvæmt enskum fjölmiðlum mun Moyes þegar hafa ráðfært sig vil Ferguson og Ryan Giggs, leikmann United, um stöðu Rooney. Hann tjáði sig svo opinberlega um Rooney í gær.

„Hann var þegar orðinn einstakur leikmaður þegar hann fór frá Everton. Við vorum stundum agndofa yfir þeim hlutum sem hann gat gert á æfingum,“ sagði Moyes.

„Hann er einn af síðustu götuboltastrákunum. Eftir æfingu átti hann það til að fara út að leika sér með vinum sínum án þess að hugsa sig tvisvar um - þó það væri ekki nema til að sparka bolta utan í vegg.“

„Sú menning hefur farið minnkandi en ég þekki hana vel frá minni æsku í Glasgow. Ég hef ekki unnið með fleiri slíkum leikmönnum síðan.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×