Enski boltinn

Norskur atvinnumaður fékk Sir Alex húðflúr hjá Íslendingi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Samsett Mynd / Facebook og Getty
„Þetta er strákur í kringum 25 ára aldur sem spilar í norsku úrvalsdeildinni," segir listamaðurinn Gunnar Valdimarsson á Íslensku húðflúrsstofunni. Húðflúr hans af Sir Alex Ferguson hefur vakið mikla athygli.

„Hann er ársmiðahafi á Old Trafford og ákvað þetta löngu áður en Sir Alex tilkynnti að hann myndi hætta," segir Gunnar sem vill ekki gefa upp nafn norsku knattspyrnukempunnar að hans ósk.

Töluvert hefur fjallað um húðflúrið í íslenskum fjölmiðlum í dag. Var því haldið fram að Íslendingur hefði fengið sér húðflúrið glæsilega en um norskan atvinnuknattspyrnumann er að ræða. Sá sendi Gunnari myndir af Sir Alex Ferguson sem á dögunum tilkynnti að hann myndi láta af þjálfun í lok leiktíðar.

„Ég valdi þá mynd sem mér fannst passa best fyrir húðflúr. Svo valdi hann textann og við settum við Old Trafford í bakgrunninn," segir Gunnar sem alla jafna fær ekki margar fyrirspurnir um húðflúr af knattspyrnumönnum eða þjálfurum. Algengara sé að tónlistarmenn eða aðrar stjörnur fari á búkinn.

Gunnar er sjálfur grjótharður stuðningsmaður Chelsea þótt hann segi að það hafi lítið að segja ef vinnan sé annars vegar. Hann hefði þó haft enn meira gaman af að vinna húðflúr af Frank Lampard eða Jose Mourinho. Aðspurður hvernig hann tæki í að skella húðflúri af Rafa Benitez, stjóra Chelsea, á líkama einhvers segir Gunnar:

„Þá þyrfti ég að kyngja stoltinu ansi mikið."

Gunnar segir að hann hafi þurft að snúa myndinni af Sir Alex þar sem Norðmaðurinn er með húðflúr af Roy Keane á hinum handleggnum. Því sé úrið á rangri hendi en Sir Alex er allajafna með úrið á vinstri hönd sinni.

„Við vorum sammála því að það væri betri lausn en að sleppa úrinu alveg. Enda úrið lykilatriði hjá karlinum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×