Enski boltinn

Le Parisien: Sir Alex hringdi í Ancelotti og bauð honum starfið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Ferguson og Carlo Ancelotti.
Alex Ferguson og Carlo Ancelotti. Mynd/Nordic Photos/Getty
Franska blaðið Le Parisien slær því upp í dag að menn þar á bæ hafi heimildir fyrir því að Sir Alex Ferguson hafi boðið Carlo Ancelotti, þjálfara Paris Saint-Germain, að taka við stjórastarfinu hjá Manchester United.

Ancelotti á að hafa sagt nei við Sir Alex og Ferguson hafi því hringt næst í landa sinn David Moyes sem mun taka við United-liðinu í sumar. Ferguson er búinn að vera stjóri Manchester United frá 1986 og liðið vann enska meistaratitilinn í þrettánda sinn á þessu tímabili.

Spænska blaðið AS skrifar síðan um það að Carlo Ancelotti ætli að hætta með Paris Saint-Germain og taka við liði Real Madrid. Þess vegna hafi hann sagt nei við því að taka við liði Manchester United. AS hefur heimildir fyrir því að Ancelotti hætti með PSG í annaðhvort dag eða á morgun.

Það eru miklar stjórahræringar í gangi enda ekki á hverjum degi þar sem fjögur stórlið á borð við Manchester United, Manchester City, Real Madrid og Chelsea eru að skipta um stjóra á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×