Íslenski boltinn

Ólafur: Verður hugsað sérstaklega vel um völlinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, var ánægður með að fá grannlið HK í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar.

Dregið var í hádeginu í dag og komu Pepsi-deildarliðin inn í mótið nú. Ljóst er að HK, sem leikur í 2. deildinni, á erfitt verkefni fyrir höndum en Ólafur ætlar ekki að vanmeta andstæðinginn.

„Þetta hafa alltaf verið skemmtilegir leikir í gegnum tíðina og það verður örugglega tilfellið nú. Þetta eru leikir sem öðlast eigið líf,“ sagði Ólafur í samtali við Vísi eftir dráttinn í dag.

„Ég efast ekki um að HK-ingar mæti grimmir til leiks, þó svo að staða liðanna í deildarkeppninni er ólík. En við erum í efstu deild og því sigurstranglegri aðilinn.“

Ólafur var ánægður með að fá leik á Kópavogsvelli. „Menn tala alltaf um að vilja fá fyrst og fremst leik á heimavelli. Við fengum heimaleik, þrátt fyrir að vera útiliðið í þessum leik. Það var gott.“

„Ég efast ekki um að vallarstjórinn eigi eftir að hugsa sérstaklega vel um völlin,“ bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×