Enski boltinn

Jol segist ekki á förum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty

Martin Jol framkvæmdarstjóri enska úrvalsdeildarliðsins Fulham segir ekkert hæft í þeim sögusögnum að hann sé á leið frá félaginu í sumar.

Fulham hefur ekki gengið sem skyldi að undanförnu og tapað fimm leikjum í röð og verið á hraðri niðurleið í deildinni.

Gus Poyet sem var nýlega settur í bann hjá Brighton hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Fulham á sama tíma og Jol hefur verið orðaður við Everton en Jol sem framlengdi samning sinn við Fulham um eitt ár fyrr á tímabilinu hefur hafnað því að hann sé ósáttur við fjárskort hjá félaginu sem hefur komið í veg fyrir að hann geti styrkt liðið sem skyldi.

„Ef fólk býr til litla sögu og ég tala um nýja leikmenn á leið inn, auðvitað þurfum við peninga,“ sagði Jol. „Stjórnarformaðurinn þarf að láta okkur fá pening, félagið er í góðri stöðu.

„Við munum reyna að kaupa leikmenn í sumar þannig að það er enginn frétt hér. Ég er mjög ánægður. Æfingasvæðið er 10 mínútum frá heimili mínu og dóttir mín er í skóla hér sem hún er mjög ánægð í.

Jol er staðfastur á því að hann muni fjárfesta í leikmönnum í sumar og hefur verið orðaður við Bakary Sako, Fernando Amorebieta og Maarten Stekelenburg.

„Þetta verður ekki auðvelt,“ sagði Jol. „Við þurfum að borga mikið fyrir þessa leikmenn. Einn þessara leikmanna er í okkar plönum en ég mun staðfesta þetta allt síðar,“ sagði Jol að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×