Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Breiðablik - Þór 4-1

Eyþór Atli Einarsson á Kópavogsvelli skrifar
Mynd/Vilhelm
Breiðablik átti ekki í miklum vandræðum með þunga Þórsara á Kópavogsvelli í dag. 4-1 sigur virkilega sannfærandi og Blikarnir byrja þetta Íslandsmót af miklum krafti.

Það kom fljótt í ljós í hvað stefndi í leiknum og voru heimamenn með yfirhöndina á flestum, ef ekki öllum, sviðum leiksins. Kristinn Jónsson var fremstur á meðal jafningja í upphafi leiks og var duglegur að dæla boltanum fyrir markið. Það dró þó ekki til tíðinda fyrr en á 24. mínútu leiksins að Elfar Árni Aðalsteinsson vann boltann fyrir utan teig Þórsara og kom sér í þröngt færi við endalínuna og skoraði með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið.

Eftir markið héldu grænklæddir uppteknum hætti og stjórnuðu því sem var hægt að stjórna á vellinum. Það var þó á 33. mínútu að Sveinn Elías slapp einn í gegn og virtist ætla að koma sér í dauðafæri en lét vaða á markið heldur snemma og boltinn fór vel yfir.

Norðanmenn virkuðu frekar pirraðir og sást það helst á ljótu broti Mark Tubæk þegar hann sparkaði aftan í Árna Vilhjálmsson og var heppinn að uppskera ekki rautt spjald.

Blikar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og duldist það engum er í stúkunni sat í hvað stefndi. Þeir hreinlega völtuðu yfir lánlausa Þórsara.

Skipulag gestanna brást og enduðu þeir í miklum eltingaleik um allan völl á meðan heimamenn léku við hvern sinn fingur.

Á 50. mínútu þræddi Árni Vilhjálmsson hárnákvæma sendingu inn fyrir á Nichlas Rohde sem kláraði færi sitt einn á móti markmanni af mikilli yfirvegun.

Árni var aldeilis ekki hættur því hann bætti við tveimur mörkum, það fyrra eftir stungusendingu frá Guðjóni Pétri Lýðssyni og það síðara eftir hárnákvæma fyrirgjöf Kristins Jónssonar.

Þórsarar klóruðu svo í bakkann í uppbótartíma með gullfallegu skallamarki Jóhanns Helga Hannessonar, smá sárabót fyrir annars dapurt lið gestanna.

Blikaliðið var heilt yfir mun sterkari aðilinn í þessum leik og voru þeir sérstaklega skeinuhættir fram á við. Árni Vilhjálmsson átti mjög flottan leik með tvö mörk og eina stoðsendingu.

Kristinn Jónsson var sterkur í vinstri bakverðinum og Andri Rafn Yeoman var sívinnandi á miðjunni.

Hjá Þór var fyrirliðinn Sveinn Elías Jónsson einn af mjög fáum með lífsmarki. Tímabilið er í það minnsta byrjað hjá Blikum en Þórsarar þurfa að hrista af sér sviðsskrekkinn fyrir næsta leik.

Árni: Bara að maður setji hann inn
„Hrikalega sáttur. Fjögur mörk og spiluðum vel á móti góðu Þórsliði en leiðinlegt að fá á sig þetta mark í lokin," sagði Árni Vilhjálmsson, leikmaður Breiðabliks, sem var á skotskónum í kvöld.

Árni skoraði tvö mörk og lagði upp eitt og var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður leiksins í dag.

„Maður fann það þegar maður skoraði fyrsta markið að það létti smá á manni en eftir annað markið var maður sáttur. Við vinnum leikinn og það er fyrir öllu. Þetta er það sem Gummi Ben og Óli hafa verið að tala um við okkur senterana að skora mörk og það skipti ekki máli hvernig maður skorar bara að maður setji hann inn," sagði maður leiksins.

„Við erum hrikalega góðir félagar og náum mjög vel saman, ef það gengur ekki upp þá þjöppum við okkur saman og vinnum sem lið," sagði Árni sem hefur fulla trú á sér á komandi tímabili og trúir því að framhaldið sé bjart bæði fyrir sig og þá grænklæddu.

Ólafur Kristjánsson: Spiluðu leikinn með sóma
„Ég er ánægður með hvernig við fórum inn í leikinn og spiluðum af festu. Við slepptum gripinu á leiknum,  skoruðum góð mörk og sköpuðum góð færi.  Mér fannst strákarnir spila þennan leik með sóma," sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks eftir sigur sinna manna á Þór í dag.

„Ég átti von á liði sem gæfi sig allt í leikinn, sem og Þórsararnir gerðu, en mér fannst við aldrei gefa þeim andrými til þessa að komast inn í leikinn og það var það sem skipti máli," segir Ólafur sáttur með leik sinna manna. "Ég get ekki verið neitt annað en ánægður og ætla ekki að vera neitt annað en ánægður."

Blikar byrja Íslandsmótið að krafti og ætla að láta til sín taka í sumar.

„Við vorum þéttir í vörninni og sóttum á þá hratt," sagði Ólafur og bætir við að skipulagð sem lagt var upp með fyrir leik hafi að mestu gengið eftir.

Palli: Misstum buxurnar á hælana
„Ég er alveg hundsvekktur að við skyldum tapa svona stórt. Ég var þokkalega sáttur við fyrri hálfleikinn en við misstum svo buxurnar niður á hælana langan tíma í seinni hálfleik. Kannski geta einhverjir sagt að við séum heppnir að sleppa bara með 4-1 því við virkuðum þungir, óskipulagðir og agalausir á löngum köflum í seinni hálfleik og það var það sem ég er svektastur með. Að við skyldum ekki halda skipulagi," sagði Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, ósáttur við frammistöðu sinna manna í dag.

„Varnarleikur liðsins sérstaklega í seinni hálfleik var ekki boðlegur finnst mér. Við vorum fullgraðir framarlega á vellinum og skildum eftir okkur holu fyrir aftan sem Blikar nýttu sér að fullu. Þetta eru flinkir fótboltamenn og þeir refsuðu.“

„Við erum ekki að fara í fyrsta skipti í rútu." sagði Páll er hann var inntur eftir svari við því hvort að rútuferð liðsins hafi tekið sinn toll á leikmennina.

Jóhann Þórhallsson féll inn í teig og vildu Þórsarar fá eitthvað fyrir sinn snúð.

„Sumir vilja meina og hann helst sjálfur, að um snertingu hafi verið að ræða, kannski hann hafi leikið um of," sagði Páll Viðar en dómara leiksins fannst atvikið ekki verðskulda víti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×