Enski boltinn

Wolves á leið í C-deildina eftir sárt tap

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Wolves hlupu inn á völlinn í leikslok og létu leikmenn heyra það.
Stuðningsmenn Wolves hlupu inn á völlinn í leikslok og létu leikmenn heyra það. Nordic Photos / Getty Images
Björn Bergmann Sigurðarson var í byrjunarliði Wolves sem varð af gríðarlega mikilvægum stigum í botnbaráttu ensku B-deildarinnar í dag.

Wolves tapaði fyrir Burnley, 2-1, og er nú þremur stigum frá öruggu sæti þegar að aðeins ein umferð er eftir.

Wolves á enn möguleika á að bjarga sér en þarf að vinna sigur á Brighton á útivelli um næstu helgi og treysta á að Barnsley tapi fyrir Huddersfield á sama tíma.

Um 500 stuðningsmenn Wolves hlupu inn á völlinn í leikslok til að láta í ljós óánægju sína og mótmæla sérstaklega Steve Morgan, eiganda félagsins.

Barnsley vann afar mikilvægan og óvæntan sigur á Hull, 2-0, á heimavelli í dag og tók þar með stórt skref í átt að bjarga sæti sínu. Hull hefur gefið eftir í síðustu leikjum og aðeins fengið eitt stig af níu mögulegum.

Hull er þó enn í öðru sæti deildarinnar og er nú með eins stigs forystu á Watford fyrir lokaumferðina um næstu helgi.

Björn Bergmann og félagar geta þó huggað sig við það að Brighton hefur að litlu að keppa í lokaumferðinni. Liðið er öruggt um sæti í umspilskeppni deildarinnar um sæti í ensku úrvalsdeildinni en þangað fara liðin sem lenda í 3.-6. sæti deildarinnar.

Björn Bergmann var tekinn af velli á 59. mínútu en varamaður hans skoraði eina mark Wolves undir lok leiksins.

Deildarmeistarar Cardiff gerðu 1-1 jafntefli við Bolton í dag. Aron Einar Gunnarsson spilaði allan leikinn fyrir Cardiff en Heiðar Helguson er frá vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×