Enski boltinn

"Mestu vonbrigði ferilsins"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Harry Redknapp, stjóri QPR, gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir 1-1 jafntefli sinna manna gegn Wigan í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.

Allt stefndi í ótrúlegan 1-0 sigur QPR þegar Shaun Maloney tryggði Wigan annað stigið með marki úr aukaspyrnu á fjórðu mínútu viðbótartíma. QPR hafði spilað í 74 mínútur manni færri eftir að Bobby Zamora var réttilega vikið af velli fyrir háskaleik gagnvart Jordi Gomez á 21. mínútu.

„Þessi úrslit eru ekki aðeins mestu vonbrigði tímabilsins heldur fótboltaferils míns," sagði Redknapp sem hefur marga fjöruna sopið. Loic Remy hafði komið QPR yfir fimm mínútum fyrir leikslok með sannkölluðu draumamarki. Stephane M'bia, Kamerúninn á miðjunni hjá QPR, átti stóran þátt í markinu. Það var hins vegar M'bia sem gaf ódýra aukaspyrnu sem Maloney skoraði jöfnunarmarkið mikilvæga úr í blálokin.

„Við áttum þetta ekki skilið. Við áttum skilið að vinna þennan leik enda vorum við manni færri nánast allan leikinn. Þetta var frábær framistaða hjá öllum leikmönnum mínum og það er glæpsamlegt að þeir þurfi að sætta sig við tap," sagði Redknapp.

Segja má að um ígildi taps hafi verið að ræða enda hefði QPR getað minnkað bilið í Wigan í fjögur stig með sigri. Enn munar sjö stigum á liðunum og möguleiki QPR um að halda sæti sínu í deildinni virðist afar fjarlægur þegar liðið á sex leiki eftir.

Mörkin úr leiknum voru vægast sagt stórglæsileg og má sjá þau í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

QPR missti af sigri á síðustu sekúndunum

Harry Redknapp og lærisveinar hans í Queens Park Rangers misstu af sigri á síðustu sekúndunum þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Wigan í sannkölluðum sex stiga leik í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×