Fótbolti

Nasistakveðjan vindur upp á sig

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/AFP
Gríski miðjumaðurin Girogos Katidis leikur ekki meira með AEK Aþenu á tímabilinu eftir nasistakveðju sem hann sendi stuðningsmönnum í leik um liðna helgi.

Katidis, sem var fyrirliði U19 ára landsliðsins, hafði áður verið settur í ævilangt bann frá leikjum með landsliði þjóðar sinnar. Nú hefur félagslið hans einnig gripið til þess bragðs að refsa honum.

Katidis sendi kveðjuna til stuðningsmanna eftir að hafa tryggt AEK sigur gegn Veria í grísku deildinni á laugardaginn.

Í yfirlýsingu frá félaginu segir að óljóst sé hvort Katidis verði enn á mála hjá AEK að tímabilinu loknu. Sú ákvörðun verði tekin í sumar með tilliti til hegðunar hans og hvaða áhrif það myndi hafa innan félagsins.

„Mér líður ömurlega yfir að hafa reitt fólk til reiði með hátterni mínu," sagði Katidis á mánudag þegar hann bað um að vera tekinn úr aðalliðshópi AEK. Hann sagðist hafa fullan skilning á refsingu gríska knattspyrnusambandsins og baðst afsökunar á hegðun sinni.

„Ég get ekki tekið gjörðir mínar tilbaka en vil að það sé á hreinu að ég er enginn fasisti, nýnasisti eða rasisti."


Tengdar fréttir

Ævilangt bann fyrir nasistakveðju

Grikkinn Giorgos Katidis, leikmaður AEK Aþenu, komst heldur betur í heimsfréttirnar um helgina þegar hann skoraði sigurmark AEK gegn Veria í 2-1 sigri liðsins en leikmaðurinn fagnaði markinu á virkilega ósmekklegan hátt eða sem virtist vera með nasistakveðju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×